Innlent

Segir stefnuleysi ríkjandi í málefnum geðsjúkra barna

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Barnageðlæknar segja að heimsókn til fagteymis gæti verið fyrsti viðkomustaður barna sem glíma við geðræn vandamál. Þar yrði vandinn greindur og þeim vísað áfram til sérfræðings, sálfræðings, barnaverndar eða félagsþjónustunnar.
Barnageðlæknar segja að heimsókn til fagteymis gæti verið fyrsti viðkomustaður barna sem glíma við geðræn vandamál. Þar yrði vandinn greindur og þeim vísað áfram til sérfræðings, sálfræðings, barnaverndar eða félagsþjónustunnar. Fréttablaðið/GVA
„Vandi barnageðlækninga er ekki einvörðungu fjárhagsvandi, hann er miklu frekar skipulagsvandi,“ segir Ólafur Ó. Guðmundsson, formaður Barnageðlæknafélags Íslands og yfirlæknir barna- og unglingageðlækninga á Landspítalanum.

Ólafur bendir á að af hálfu heilbrigðisyfirvalda hafi ekki verið mörkuð stefna í barna- og unglingageðlækningum, sem valdi skekkju í kerfinu.

Þegar börn lenda í tilfinningalegum vanda eða eiga við hegðunarvanda að etja viti foreldrar eða aðstandendur ekki hvert á að leita, hvort þeir eiga að fara á heilsugæslustöð, til skólasálfræðings eða leita til barnaverndar eða á sjúkrahús. Þetta verði til þess að fólk leiti oft í sérhæfða þjónustu og skipulagsleysið valdi auknu álagi á barna- og unglingageðdeildina. „Þetta er aukaálag sem þarf ekki að vera til staðar,“ segir Ólafur.

Barnageðlæknafélag Íslands hefur fjallað um þessi mál og ítrekað lýst áhyggjum af stöðu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Menn hafa sér í lagi áhyggjur af stöðunni úti á landi.

Á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri voru nýlega gerðar skipulagsbreytingar sem leiddu til þess að barnageðlæknisþjónusta sjúkrahússins lagðist af. Á sjúkrahúsinu starfaði einn barnageðlæknir en hann hætti störfum. Nú hefur hann gert tímabundinn samning við FSA um að leigja aðstöðu af sjúkrahúsinu. Hann er eini starfandi barnageðlæknirinn utan höfuðborgarsvæðisins.

Stjórn Barnageðlæknafélagsins gerir það að tillögu sinni að komið verði upp þverfaglegum teymum í tengslum við heilsugæslustöðvar þar sem hvert teymi sinnir tilteknum fjölda barna og unglinga. Hvar teymin verða staðsett ætti að ráðast af fjölda ungmenna og landfræðilegum aðstæðum, segir í ályktun stjórnar til heilbrigðisráðherra.

Ólafur segir að heimsókn til fagteymis gæti verið fyrsti viðkomustaður barna. Þar yrði vandinn greindur og börnunum vísað áfram til sérfræðings, sálfræðings, barnaverndar eða félagsþjónustunnar.

Hann segir að eins og er sé ekki nægjanlega margt faglært fólk hér á landi sem gæti sinnt þessari þjónustu. Þetta sé ekki nógu aðlaðandi starfsumhverfi eins og sé en ef stjórnvöld bættu starfsaðstöðuna myndu án efa fleiri vilja mennta sig á þessu sviði.

Langur biðlisti á BUGL

Tæplega 80 þúsund börn eru undir átján ára aldri hér á landi. Af þeim fjölda er talið að tíu prósent eða 8 þúsund börn glími við alvarlegar geðraskanir. Þessi börn þurfa sérhæfða þjónustu á sjúkrastofnunum. Talið er að svipaður fjöldi þurfi á stuðningsþjónustu að halda vegna hegðunar- eða tilfinningavandamála. Vanda þeirra barna ætti að vera hægt að leysa innan skólakerfisins eða hjá félagsþjónustunni.

Nú eru 150 börn á biðlista hjá barna- og unglingageðdeild við Dalbraut. Þau sem þurfa bráðaþjónustu komast að strax en önnur geta þurft að bíða í allt að ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×