Innlent

Með sjúkrabíl milli sjúkrahúsa vegna bilunar í sneiðmyndatæki

Samúel Karl Ólason skrifar
Flytja þurfti sjúklinga með sjúkrabílum á milli sjúkrahúsa.
Flytja þurfti sjúklinga með sjúkrabílum á milli sjúkrahúsa.
Sneiðmyndatækið í Landspítalanum í Fossvogi bilaði seinni part síðastliðins fimmtudags og flytja þurfti þá sjúklinga sem þurftu í sneiðmyndatöku á Landspítalann við Hringbraut með sjúkrabílum.

Samkvæmt upplýsingum frá lækni á bráðamóttökunni í Fossvogi höfðu þrír eða fjórir sjúklingar verið fluttir með sjúkrabíl klukkan tvö á föstudaginn hið minnsta.

„Þetta eru bráðnauðsynleg tæki til að meta bráðveika og slasaða sjúklinga og við eigum í erfiðleikum með að gera það jafnvel og þyrfti með því að vera ekki með tækið virkt hérna í Fossvoginum. Það er alveg bráðnauðsynlegt að tölvusneiðmyndatæki sé alltaf tiltækt á bráðadeild,“ segir Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir á bráðamóttökunni í Fossvogi.

Stutt er síðan þetta tæki bilaði síðast og þá var það bilað í tvær vikur. Óvíst er hve langan tíma viðgerð á sneiðmyndatækinu mun taka en það verður ekki fyrr en eftir helgi. „Þetta hefur gerst endurtekið og þau bila til skiptis tækin á Hringbraut og hér í Fossvogi,“ segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×