Skoðun

Hvernig hjúkrun vilt þú?

Með sameiningu stofnana og niðurskurði í heilbrigðisþjónustu hefur möguleikum hjúkrunarfræðinga á að velja sér vinnustað fækkað mjög. Ekki síst í því ljósi eru uppsagnir tæplega 300 þeirra á LSH mjög alvarlegar og ljóst að mikil óánægja býr þar að baki. Um er að ræða hóp hjúkrunarfræðinga sem hefur að jafnaði fjögurra ára háskólanám að baki. Þar að auki hafa margir í þessum hópi aflað sér sérfræðimenntunar, til dæmis á sviði svæfinga- eða skurðstofuhjúkrunar eða aflað sér meistaragráðu frá háskóla innanlands eða erlendis.

Rök heilbrigðisyfirvalda

Rök fyrir vondri launasetningu hjúkrunarfræðinga í samanburði við aðrar stéttir með jafnlangt háskólanám hafa yfirleitt verið þau að stéttin sé stór og þar af leiðandi erfitt að launa hana vel og að svo sé vaktavinna hluti af starfi hjúkrunarfræðinga og hana beri að líta á sem möguleika til að hækka tekjur. Sjálfir líta hjúkrunarfræðingar flestir þannig á að byrði sé af nætur- og helgarvinnu og kalla þennan „tekjumöguleika“ vaktabyrði. Þar hefur hins vegar orðið sú breyting á að sífellt fleiri sjúklingar fá þjónustu á dag- og göngudeildum og hefur því vinnutími hjúkrunarfræðinga færst meira til dagvinnu en áður var. Hvað varðar stærð stéttarinnar þá eru allir sem koma að uppsögnum hjúkrunarfræðinga á LSH nú sammála um að við þurfum á þessum hjúkrunarfræðingum að halda, við viljum njóta starfskrafta þeirra, gerum kröfu um þekkingu þeirra og reynslu þegar mest á reynir hjá okkur sjálfum.

Pólitísk hræðsla

En hvert stefnir þessi stétt þar sem meðalaldurinn nálgast að vera 50 ár? Það er ljóst að nýliðun í stéttinni er langt frá því að vera nægjanleg, hvort sem miðað er við núverandi verkefni eða þá miklu áskorun sem fjölgun aldraðra og langveikra er fyrir okkur hjúkrunarfræðinga. Að mínu mati þarf að taka pólitíska ákvörðun um framtíð hjúkrunarþjónustu á Íslandi og það fyrr en seinna. Eiga hjúkrunarfræðingar að veita þá þjónustu sem þeir nú veita eða aðrir með minni menntun? Ég treysti mér til að fullyrða að verði það raunin hefði slíkt í för með sér verri árangur heilbrigðiskerfisins. Verri árangur heilbrigðiskerfisins þýðir lengri biðlista, lengri viðbragðstíma, og fleiri mistök sem mátt hefði koma í veg fyrir. Hjúkrun var færð á háskólastig á Íslandi af mikilli framsýni þar sem óteljandi rannsóknir sýna að góð fræðileg þekking er undirstaða árangurs og framfara. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir þeirri spurningu hvort Íslendingar forgangsraði þannig að ungt fólk sjái sér fært eða yfirleitt langi að læra hjúkrunarfræði og stunda hjúkrun á Íslandi. Þangað til stendur erlendur vinnumarkaður okkur opinn því íslenskir hjúkrunarfræðingar eru mjög vel menntuð stétt og eftirsóttir til starfa á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum.




Skoðun

Sjá meira


×