Innlent

Formaður Landverndar: "Við skulum bara vona að þetta hafi verið byrjendamistök“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir ummæli forsætisráðherra hafa verið blauta tusku í andlit náttúruverndarfólks.
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir ummæli forsætisráðherra hafa verið blauta tusku í andlit náttúruverndarfólks.

„Þetta kemur í rauninni bara í kjölfarið af yfirlýsingum forsætisráðherra um helgina, þar sem hann segir umsagnir um rammaáætlun séu byggðar á fjöldapósti frá umhverfissinnum“, segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar. Hann segir ummælin hafa verið blauta tusku í andlit náttúruverndunarfólks.

 

Umhverfissinnar afhenda forsætisráðherra og umhverfisráðherra þær umsagnir um rammaáætlun sem bárust til Alþingis og ráðuneyta á morgun kl 17. Einnig verður þeim afhent áskorun um að draga til baka yfirlýsingar um að fleiri svæði verði færð í virkjanaflokk rammaáætlunar. Yfir 1000 manns hafa nú þegar boðað komu sína á viðburðinn í gegnum facebook.

 

Guðmundur segir augljóst að forsætisráðherra hafi kynnt sér málið illa og að ummæli hans séu mikill misskilningur. Umsagnirnar hafi meðal annars borist frá þrettán umhverfisverndarsamtökum, Samtökum ferðaþjónustunnar, Verndarsjóði villtra laxastofna, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Hveragerðisbæ. Að baki þeim liggi mikil og vel ígrunduð vinna. „Það er full ástæða til að bregðast við og leiðrétta þennan misskilning. Við ætlum að mæta og afhenda honum umsagnirnar svo hann geti kynnt sér gögnin og orðið betur upplýstur um afstöðu félagasamtaka og einstaklinga til málsins“, segir Guðmundur sem vonast til að yfirlýsingarnar verði dregnar í land. „Við skulum bara vona að þetta hafi verið byrjendamistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×