Innlent

Hið opinbera eykur verðbólgu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Auknar álögur á eldsneyti frá 2008 eru meðal veigamestu verðbólguvalda.
Auknar álögur á eldsneyti frá 2008 eru meðal veigamestu verðbólguvalda. Fréttablaðið/Anton
Auknar opinberar álögur hafa hækkað hér verðbólgu síðustu ár um fimm til sex prósent, samkvæmt áætlun hagdeildar Alþýðusambands Íslands.

„Ríki og sveitarfélög hafa á síðustu árum aukið álögur á heimilin með ítrekuðum hækkunum á gjaldskrám og neyslusköttum. Þessar hækkanir skila sér beint út í verðlag og valda aukinni verðbólgu," segir í tilkynningu ASÍ í gær.

„Frá árinu 2008 hefur opinber þjónusta hækkað um ríflega 35 prósent auk þess sem auknar álögur á eldsneyti, áfengi og tóbak hafa valdið um þriðjungshækkun á þessum vörum á tímabilinu."

Fram kemur í umfjölluninni að áhrifum af álögum opinberra aðila á verðlag megi skipta annars vegar í beinar hækkanir á gjaldskrám og hins vegar í ýmsa neysluskatta sem leggjast á verð vöru og þjónustu. Meðal aukinna álaga sem áhrif hafa til hækkunar á verðbólgu eru nefndar hækkanir sveitarfélaga á leikskóla- og vistunargjöldum, stóraukin sorphirðu- og holræsagjöld, hækkun á virðisaukaskatti og sérstakar álögur á eldsneyti, tóbak og áfengi.

„Opinberir aðilar hafa í upphafi þessa árs enn aukið álögur sem leitt hafa til hækkana á flestum þeim liðum sem hér er fjallað um," segir hagdeild ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×