Innlent

Taldi sig ekki lengur njóta trausts

Freyr Bjarnason skrifar
Páll Magnússon sagði upp sem útvarpsstjóri í gær. Hann þakkaði öllum þeim sem hann hefur unnið með á RÚV síðustu átta árin.
Páll Magnússon sagði upp sem útvarpsstjóri í gær. Hann þakkaði öllum þeim sem hann hefur unnið með á RÚV síðustu átta árin. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Páll Magnússon sagði upp störfum sem útvarpsstjóri í gær. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér sagði hann ástæðuna vera þá að hann nyti ekki lengur trausts stjórnarinnar.

Páll hafði verið gagnrýndur eftir að hann sagði upp tugum manns hjá RÚV á dögunum í hagræðingaraðgerðum vegna niðurskurðar stjórnvalda. Einhverjum þótti hann ekki hafa staðið vel að uppsögnunum og sumum þóttu áherslur hans í hagræðingaraðgerðunum ekki vera réttar.

Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV ohf., sagði það ekki rétt að Páll hefði ekki notið trausts stjórnarinnar.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði ákvörðun Páls Magnússonar um að hætta sem útvarpsstjóri hafa verið skiljanlega í ljósi aðstæðna.

Páll vildi ekkert tjá sig um uppsögn sína þegar leitað var eftir því í gær.

Lísa, Helgi og Óli Pallimynd/365
Starfsmenn RÚV um brotthvarf Páls

Með storminn í fangið mánuðum saman


Ólafur Páll Gunnarsson, verkefnastjóri tónlistar á Rás 2, segir að uppsögnin hafi ekki komið sér á óvart eftir allt sem á undan er gengið. „Það þarf sterk bein til að standa með storminn í fangið mánuðum og árum saman án þess að bogna eða brotna og ég skil vel að Páll hafi hugsað sem svo: „Nei, nú nenni ég þessu ekki meir, maður lifir jú bara einu sinni og maður á ekki að eyða lífi sínu í endalaust þras og leiðindi.“ Ég ímynda mér a.m.k. að þetta sé ástæðan fyrir brotthvarfi hans,“ segir hann.

Óli Palli telur að brotthvarf Páls auki óvissuástandið sem hefur ríkt á RÚV. „Það er auðvitað óþolandi og drepleiðinlegt. Nógu erfitt hefur ástandið verið undanfarið.“

Hann er soddan þrjóskuhaus

„Þetta kom mér verulega á óvart af því að hann er soddan þrjóskuhaus. Ég hefði haldið að hann myndi ekki gera þetta,“ segir Lísa Pálsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 1.

Aðspurð hvernig hafi verið að vinna með Páli segir Lísa: „Ég hef ósköp lítið um það að segja annað en að mér fannst þessar uppsagnir óþarflega ruddalegar. Ég skil ekki að menningarstofnun þurfi að beita sömu aðferð og lyfjafyrirtæki og fjármálastofnanir beita. Af hverju þurfti fólk að fara á þennan hátt?“

Hlakkar eflaust í mörgum

„Mér þykir þetta ömurlegt, vægt til orða tekið. Fyrir utan þá staðreynd að mér er hlýtt til Páls persónulega og að atburðir undanfarinna vikna hafa vafalaust verið honum jafn erfiðir og okkur, hefur hann reynst mér góður yfirmaður. Hann er blaðamaður og skilur það hlutverk betur en margir yfirmenn þeirra fjölmiðla sem ég hef starfað á,“ segir Helgi Seljan, fréttamaður í Kastljósinu.

„Þó ég hafi gagnrýnt þær uppsagnir sem hér urðu, hafi talið og telji enn að þær hafi verið illa framkvæmdar, þá var staðan sem hann var settur í ekki auðveld. Það hlakkar eflaust í mörgum við þessi tíðindi, enda hafa ótrúlegustu hópar náð saman í að gera Pál að einhvers lags holdgervingi þessara súrrealísku tíma.

Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri
Útvarpsstjóri og nokkur umdeild mál

2013:
Margir gagnrýndu Pál Magnússon fyrir það hvernig hann stóð að fjöldauppsögnunum á RÚV á dögunum, þar á meðal Helgi Seljan, starfsmaður RÚV. Sumir óskuðu þess að hann yrði ekki endurráðinn sem útvarpsstjóri. Undirskriftalisti þess efnis var meðal annars settur í gang á netinu.

2010: Páll var gagnrýndur, meðal annars af Vinstri grænum og Merði Árnasyni hjá Samfylkingunni, fyrir Audi-jeppa sem hann hafði til umráða en hann var hluti af hlunnindum hans og reiknaðist inn í heildarlaun hans hjá RÚV. Jeppinn þótti vera bruðl með almannafé og svo fór að Páll ákvað að skila honum.

2008: Fréttalestur Páls var umdeildur. Félag fréttamanna afþakkaði fréttalesturinn um svipað leyti og það fordæmdi uppsagnir á RÚV. Stjórnarmenn RÚV höfðu einnig gagnrýnt lesturinn. Ekki þótti við hæfi að Páll fengi greitt fyrir hann.

2007: Laun Páls voru næstum tvöfölduð skömmu eftir að Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag. Launin fóru út 800 þúsundum í 1,5 milljónir króna og þótti sumum nóg um. Launin voru sögð taka mið af breyttu starfssviði útvarpsstjóra, þar á meðal fréttalestri og öðru sem hafði ekki verið á starfssviði hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×