Lífið

Þrjú kíló á þremur stundarfjórðungum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Björn, eða Vopnafjarðar-tröllið, ætlar að klára borgarann á 45 mínútum.
Björn, eða Vopnafjarðar-tröllið, ætlar að klára borgarann á 45 mínútum.
„Ég fór þarna um daginn og borðaði hálft fjölskyldutilboð með meðlæti, það var ekkert mál,“ segir Björn Sigurðarson, einnig þekktur sem Vopnafjarðartröllið, sem tekið hefur áskorun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins um að leggja sér til munns tæplega þriggja kílóa hamborgara á veitingastaðnum Texasborgurum.

„Ég hef einu sinni borðað nautasteik sem var eitt og hálft kíló. Það var úti í Flórída. Þá fékk ég mér djúpsteiktan krókódíl í forrétt og súkkulaðiköku í eftirrétt. Þá var engin keppni í gangi, ég gerði það bara ánægjunnar vegna. Nú er aftur á móti meira í húfi, þetta er alvöru keppni,“ segir Björn og bætir við að hann sé örlítið kvíðinn fyrir átið. Hann er júdókappi og líkir þessu við slíka keppni.

„Þetta er eiginlega sami kvíði og maður fær fyrir júdókeppni. Ég er ekkert hræddur við að klára ekki matinn, ég er meira hræddur við að verða eitthvað veikur að borða svona mikið á svona stuttum tíma. Þetta er máltíð fyrir örugglega átta manns, þannig að þetta verður rosalegt,“ útskýrir Björn. Hann er með vel úthugsaða áætlun, en hefur þó ekki ákveðið hvort hann drekki vatn eða gos með matnum. 

„Ég ætla að leyfa því að ráðast þegar ég kem á staðinn og finn stemninguna.“

Björn segist hafa orðið örlítið kvíðnari þegar hann heyrði að kraftajötunninn Hafþór Júlíus Björnsson hefði reynt við borgarann og ekki náð að klára. „Það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni. En ég reikna samt með því að ná að klára þetta og stefni á að gera það á fjörutíu og fimm mínútum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.