Innlent

Erlendur maður áreitir íslenskar stúlkur

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Áslaug Arna fékk mikinn fjölda skilaboða frá þessum bandaríska manni.
Áslaug Arna fékk mikinn fjölda skilaboða frá þessum bandaríska manni.
„Að einhver geti komist svona nálægt manni á netinu er mjög sérstakt. Maður var orðinn svolítið var um sig og farinn að hugsa um hvað hann myndi gera næst,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir laganemi, sem lenti í því að bandarískur maður fékk hana á heilann og áreitti hana upp að því marki að hún þurfti að eyða ákveðnum forritum úr símanum sínum.

„Ég byrjaði að ræða þetta við vinkonur mínar og þá komst ég að því að hann var búinn að sigta út fleiri stelpur sem lentu í þessu sama,“ útskýrir Áslaug. Hún segir að í fyrstu hafi hann verið ákaflega kurteis og forvitinn um land og þjóð.

„Hann byrjaði að fylgja mér í gegnum Instagram-forritið og hafði svo samband við mig á Facebook. Þá var hann að spyrja svona týpískra túristaspurninga. Ég svaraði honum ekki í fyrstu, en hann ítrekaði spurningar sínar og þá ákvað ég að svara þremur eða fjórum slíkum,“ segir Áslaug. Við það virðist maðurinn hafa komist á bragðið.

„Hann fór að senda mér skilaboð oft á dag og ég stillti Facebook þannig að ég fengi ekki tilkynningu í hvert sinn sem hann sendi. Við það reiddist hann mjög og fór að kalla mig öllum illum nöfnum.“ Áslaug segist hafa áttað sig á hversu alvarlegt málið var þegar maðurinn bjó til Youtube-myndband þar sem hann spurði hana persónulegra spurninga.

„Hann var greinilega búinn að vinna heimavinnuna sína og spurði mig mjög persónulegra spurninga. Þá sá ég manninn og gerði mér betur grein fyrir því að hann á bágt,“ útskýrir Áslaug. Hún segir manninn hafa sent sér fjölda mynda af daglegu lífi. Hann komst svo yfir símanúmerið hennar og hóf að hringja í hana í gegnum forritið Viber, sem er gjarnan notað í millilandasímtöl. 

„Hann hringdi og sendi mér skilaboð mörgum sinnum á dag. Hann sendi mér talskilaboð sem voru þrjátíu sekúndur hvert og þau komu í massavís. Ég stillti Viber líka þannig að ég fengi ekki tilkynningar þegar hann hefði samband, en á endanum var þetta orðið svo mikið að ég þurfti að eyða forritinu,“ sem Áslaugu þykir slæmt því hún noti forritið mikið til þess að hafa samband við vinkonur sínar sem eru búsettar erlendis.

„Hann hefur áreitt fleiri stelpur. Hann kallar sig Scandinavian12 á Instagram og fylgist næstum því bara með íslenskum stelpum. Ég hef heyrt af stelpum sem hafa lent á spjalli við hann og talað við hann lengi. Ég ráðlegg stelpum að svara honum ekki. Ég held að það hafi verið mistökin sem ég gerði. Ég svaraði honum einu sinni og hann var með mig á heilanum í margar vikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×