Skoðun

Betur má ef duga skal!

Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Anna Sigríður Þráinsdóttir skrifar
Rannveig Magnúsdóttir sendi Ríkisútvarpinu þarfa brýningu í Fréttablaðinu 6. desember sl. og krafði okkur svara við því hvers vegna ekki væru fleiri dagskrárliðir en raun ber vitni sendir út með texta á 888-síðu textavarpsins.

Því er fyrst til að svara að nær allir þættir Ríkisútvarpsins, sem teknir eru upp fyrirfram, eru sendir út með 888-texta, þ.m.t. Kiljan.

RÚV átti frumkvæði að því að hefja samtímatextun sjónvarpsfrétta, og fjárfesti í hugbúnaði, þjálfun og starfskröftum til þess á síðasta ári. Samtímatextunin hófst 13. mars sl., sama dag og ný lög um RÚV voru samþykkt á Alþingi, þar sem kveðið er á um slíka textun. Markmiðið var ekki síst að allir umræðuþættir og fréttaskýringar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga yrðu send út með samtímatextun, og það tókst.

Eftir standa aðrir dagskrárliðir sem sendir eru út í beinni útsendingu, eins og Kastljós, Útsvar og Sunnudagsmorgunn. Þar hittir gagnrýni Rannveigar beint í mark – því enn hefur ekki tekist að finna leiðir til að senda þá út með samtímatextun í beinni útsendingu. Þeir eru hins vegar textaðir í endursýningu. Ólíkt fréttunum eru þættirnir ekki sendir út eftir tilbúnum handritum, og því getur textunarbúnaðurinn sem notaður er í fréttunum ekki lesið handritstexta þáttanna og breytt honum í 888-texta.

Tvö ljón í veginum

Ljónin í vegi samtímatextunar í beinni útsendingu eru fyrst og fremst tvö: Til að texta þætti þar sem viðtöl eru tekin í beinni útsendingu þarf annað hvort marga rittúlka, sem geta skrifað jafnóðum niður það sem sagt er í þættinum, eða máltæknibúnað sem getur breytt töluðu máli í texta á skjá. Rittúlkar eru enn allt of fáir á Íslandi, og aðeins einn hefur fengist til að sinna samtímatextun fyrir RÚV, í hjáverkum.

Starfshópur RÚV um samtímatextun hefur fundað með fulltrúum Máltækniseturs um þróun talgreiningarkerfis, sem gæti breytt töluðu máli á íslensku í ritað mál. Slík tækni opnaði möguleika til að samtímatexta allt innlent sjónvarpsefni RÚV með hagkvæmum hætti. Þetta merkilega verkefni Máltækniseturs strandar hins vegar á fjárskorti, og verður að teljast óraunhæft að það nýtist áhorfendum RÚV í náinni framtíð.

Við fögnum því að fá tækifæri til að benda á þörfina fyrir fleiri rittúlka og aukna athygli að talgreiningarverkefni Máltækniseturs. Sjálf þökkum við hvatninguna og höldum ótrauð áfram að vinna að því að áhorfendur okkar geti nálgast vandað, textað sjónvarpsefni á RÚV – líka í beinni útsendingu.




Skoðun

Sjá meira


×