Innlent

Bílar Kópavogsbæjar eyða helmingi minna

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri við einn hinna sparneytnu bíla Kópavogsbæjar. Tæpur helmingur af þrettán bílum þjónustuvers bæjarins eyðir aðeinl sex lítrum á hundraðið.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri við einn hinna sparneytnu bíla Kópavogsbæjar. Tæpur helmingur af þrettán bílum þjónustuvers bæjarins eyðir aðeinl sex lítrum á hundraðið. Fréttablaðið/Vilhlem
Eldsneytiseyðsla bílaflota þjónustuvers Kópavogsbæjar hefur minnkað um helming á tveimur árum.

„Við hjá Kópavogsbæ höfum markvisst á undanförnum misserum verið að skipta út eldri og bensínfrekum bílum fyrir minni og sparneytnari bíla. Nýju bílarnir eyða um helmingi minna en þeir sem eldri voru,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri við Fréttablaðið.

Málið var rætt í bæjarráði er Ólafur Þór Gunnarsson úr Vinstri grænum lagði til að við endurnýjun á bílakosti bæjarins verði fyrst og fremst horft til bíla sem ekki nota kolefnaeldsneyti, eða nota það í litlum mæli. Mikilvæg skilaboð til samfélagsins séu að stór opinber aðili eins og Kópavogur taki slíka ákvörðun.

„Nú fást á markaði rafmagns- og tengiltvinnbílar frá flestum helstu framleiðendum bifreiða. Verð slíkra kosta hefur farið lækkandi og rekstrarkostnaður er hverfandi borið saman við hefðbundna kolefnaeldsneytisbíla,“ segir í tillögu Ólafs sem bæjarráð samþykkti að vísa til úrvinnslu hjá umhverfis- og samgöngunefnd bæjarins.

Ármann bæjarstjóri sagði á fundinum að öll bílakaup Kópavogsbæjar hefðu tekið mið af því að minnka útblástursmengun. Hann benti á að eldsneytiseyðsla bílaflota þjónustuvers bæjarins hefði minnkað um helming á tveimur árum.

Þar er um að ræða alls þrettán bíla sem bæjarstarfsmenn geta notað. Meðal annars nýtir heimaþjónusta velferðarsviðs bílana. Sex bílanna eyða sex lítrum á hverja hundrað ekna kílómetra en hinir eyða tíu til tólf lítrum á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá bæjarskrifstofunum.

„Ég er líka opinn fyrir hugmyndinni um rafmagnsbíla og mun mæla með því að slíkur bíll verði keyptur næst þegar þarf að endurnýja bíl hjá bænum,“ segir bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×