Innlent

Skoðið símreikningana vel

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fólk veit stundum ekki fyrir hvað símafyrirtækin eru að rukka.
Fólk veit stundum ekki fyrir hvað símafyrirtækin eru að rukka.
Ingibjörg Magnúsdóttir hjá Neytendasamtökunum hvetur fólk til að skoða vel reikninga sína.
„Það koma alltaf reglulega upp hjá okkur tilfelli þar sem fólk áttar sig ekki á símareikningnum og hefur mögulega verið ofrukkað,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, fulltrúi hjá Neytendasamtökunum.

Til er í dæminu að fólk hafi ekki hugmynd um hvað sé verið að rukka fyrir þegar það skoðar reikninginn. „Það kemur fram í lögum hvað þarf að koma fram á reikningnum. En undir aðra þjónustu og virðisaukandi þjónustu getur margt fallið, til dæmis styrkir, áskriftir, leiga á myndum ásamt mörgu öðru,“ segir Ingibjörg.

Neytendasamtökin sendu erindi til fjarskiptafyrirtækja fyrir tveimur árum vegna þessa gjaldliðar.

„Það er alveg ógerlegt fyrir fólk að átta sig á hvað er í raun verið að innheimta og Neytendasamtökunum finnst alveg óásættanlegt að þessum kostnaðarlið sé ekki gefið sjálfstætt heiti á símreikningum,“ segir Ingibjörg.

Hún hvetur alla til að hringja og biðja um frekari upplýsingar þegar það veit ekki hvað er verið að rukka fyrir. Öll fyrirtæki eiga að geta svarað slíkum fyrirspurnum. En fólk þarf þá að hafa yfirsýn yfir reikninga sína.

„Fólk þarf að vera meðvitað um reikningana sína. Það þarf að skoða þá í heimabankanum, það tekur ekki lengri tíma en að skoða póstsendan seðil, og kvarta strax ef það kannast ekki við eitthvað á reikningnum,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir.

Erfitt að fá útskýringar á reikningnum

Jón Einar Guðmundsson fékk í tvígang átta þúsund króna aukareikning frá Vodafone. Hann reyndi ítrekað að fá svör hjá þjónustuveri fyrirtækisins.

„Starfsfólkið í þjónustudeildinni gat ekki gefið mér útskýringu á þessari viðbót, sagði að þetta væri líklega bara heimasíminn eða GSM-síminn, en það væri ekki með upplýsingar um það.“

Jón Einar er með viðskipti sín við Vodafone í greiðsluþjónustu og því fannst honum undarlegt að þessi reikningur bættist við. „Eftir nokkrar tilraunir til að fá útskýringar leitaði ég til þriðja aðila sem gat séð að það væri verið að ofrukka mig. Þá fékk ég þetta endurgreitt.“

Jón Einar vildi vekja athygli á þessu því það væru örugglega fleiri sem lenda í þessari stöðu. „Það er slæmt að fá ekki útskýringar þegar maður hringir í þjónustuverið og það er erfitt að fá leiðrétt mistök þegar fólkið sem þjónustar þig getur ekki svarað fyrir þau.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×