Lífið

Vill heilla Pharrell með hauskúpubol

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sara María heldur mikið uppá Pharrell.
Sara María heldur mikið uppá Pharrell. Fréttablaðið/Stefán
„Ég held mjög mikið uppá hann. Hann er algjört átrúnaðargoð hjá mér. Hann er bæði óendanlega fallegur og gerir ótrúlega góða tónlist. Svo predikerar hann líka svo heilbrigða hugsun og jákvæðan boðskap. Hann predikerar þann boðskap að maður á að vera maður sjálfur,“ segir fatahönnuðurinn Sara María Júlíusdóttir, oftast kennd við Forynju. Hún tekur nú þátt í keppni á vegum tónlistarmannsins Pharrell Williams á Facebook þar sem fólk sendir inn bol sem það hefur hannað. Vinningsbolurinn verður tilkynntur þann 16. desember en í verðlaun eru fimm hundruð dollarar, um sextíu þúsund krónur. Auk þess verður bolurinn seldur í verslununum Billionaire Boys Club sem Pharrell stofnaði.

„Mér datt í hug að senda inn bol sem ég og vinkona mín, Hildur Sif Kristborgardóttir, gerðum. Ég er ekki með neinar væntingar. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég myndi vinna. Ég myndi örugglega fríka út ef ég fengi persónuleg skilaboð frá honum. En þetta er mjög spennandi, sérstaklega út af því að ef bolurinn minn vinnur verður hann framleiddur og seldur í Billionaires Boys Club. Það væri geðveikt,“ segir Sara sem er ávallt með mörg járn í eldinum.

„Ég er að selja mína hönnun í Kirsuberjatrénu og tók þátt í Pop Up-markaði í fyrsta sinn síðustu helgi í Hörpu og verð aftur næstu helgi. Síðan er ég að vinna að barnafatalínunni minni sem gengur hægt en örugglega. Ég þarf alltaf að vera með þúsund járn í eldinum.“

Hér er hægt að kjósa bolinn hennar Söru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.