Innlent

Heimilislausir þiggja ekki félagslegt húsnæði

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Björk Vilhelmsdóttir formaður velferðarráðs segir að búa þurfi til þjónustukeðju fyrir heimilislausa í Reykjavík
Björk Vilhelmsdóttir formaður velferðarráðs segir að búa þurfi til þjónustukeðju fyrir heimilislausa í Reykjavík Mynd / Valli
Dæmi eru um að heimilislausir menn sem boðið er félagslegt húsnæði þiggi það ekki.

„Sumir eru hreinlega fastir á þessum stað í tilverunni, að gista í Gistiskýlinu og nýta sér neyðarúrræði í stað þess að reyna að koma undir sig fótunum,“ segir Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs.

„Það er verið að vinna í að breyta inntökuskilyrðum í Gistiskýlið og búa til þjónustukeðju. Þannig fari menn af einum stað á annan og geti ekki hafnað tilboðum,“ segir Björk.

Meðalfjöldi þeirra sem gistu í október í Gistiskýlinu voru 19,7 miðað við 16 til 17 að jafnaði árin 2011 og 2012. Vegna þessa verður bætt við fimm gistirýmum á Vatnsstíg svo ekki þurfi að vísa mönnum frá.

Sigryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar miðborgar og hlíða, staðfestir að heimilislausir hafni því að fá húsnæði en segir einnig fjölgun hafa orðið í hópnum.

„Fjölgunin er fyrst og fremst meðal útlendinga. Við höfum ekkert fast í hendi en líklega eru þetta einstaklingar sem hafa haft hér atvinnu en svo misst hana.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×