Innlent

Aðilar úti í bæ semji ekki ný frumvörp

Freyr Bjarnason skrifar
Ómar segir óeðlilegt að hagsmunaaðilar komi beint að mótun frumvarpa.
Ómar segir óeðlilegt að hagsmunaaðilar komi beint að mótun frumvarpa. fréttablaðið/valli
Ómar H. Kristmundsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir ekki eðlilegt að hagsmunaðilar komi beint að samningu frumvarpa.Í Fréttablaðinu í gær kom fram að fyrirtækið Carbon Recycling International hafi skrifað stóran hluta af fyrstu drögum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að frumvarpi um endurnýjanlegt eldsneyti. Fyrirtækið framleiðir metanól sem má nota sem íblöndunarefni í bensín. Frumvarpið varð að lögum sex mánuðum síðar.Ómar kveðst ekki vita til þess að ákvæði séu um það í lögum sem meini hagsmunaðilum að koma drögum að frumvörpum á framfæri. „Kjarni málsins er sá að það er hlutverk stjórnarráðsins að vinna frumvörp en ekki aðila úti í bæ. Það þarf eiginlega ekki að setja reglu um það því það er svo augljóst,“ segir hann, aðspurður.Hann segist ekki geta lagt mat á þetta tiltekna mál því hann þekki það ekki nægilega vel. „Almenna reglan er sú að stjórnarfrumvörp eru samin af sérfræðingum ráðuneytanna eða stofnana þeirra. Stundum er sérfræðingum utan ráðuneytis eða sérstökum samstarfshópi falið verkefnið.“Ómar segir að skilja verði á milli frumvarpsgerðarinnar sjálfrar og samráðs. „Það hefur verið vaxandi áhersla hjá íslenskum stjórnvöldum að auka samráð við stefnumótun mála sem leiða til lagabreytinga. Í því hefur falist samráð við hlutaðeigandi. Það er eðlilegt að á stefnumótunarstigi sé haft samráð við ólíka hagsmunaaðila,“ segir hann.„Einnig þurfum við að hafa í huga að þegar frumvarp hefur verið lagt fram er ávallt leitað umsagnar hagsmunaaðila og rætt við þá í viðkomandi fagnefnd þingsins.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.