Lífið

Rísandi stjarna í raftónlistarheiminum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jóhann Steinn Gunnlaugsson raftónlistarmaður var knár fimleikakappi á yngri árum.
Jóhann Steinn Gunnlaugsson raftónlistarmaður var knár fimleikakappi á yngri árum. fréttablaðið/gva
„Hann á sinn þátt í að starta ferli mínum,“ segir raftónlistarmaðurinn Jóhann Steinn Gunnlaugsson sem hefur fengið hjálp frá heimsþekkta raftónlistarmanninum hollenska Armin van Buuren í að koma sér á framfæri.

Jóhann Steinn er 23 ára gamall og hóf raftónlistarferilinn árið 2009. „Ég er upphaflega rokktrommuleikari en svo fékk ég áhuga á raftónlist. Það er líka fínt að vera bara sinn eigin herra í þessu, núna hefur það engin áhrif ef einhver hljómsveitarmeðlimur skrópar á hljómsveitaræfingu því ég er bara einn.“

Hollenska stjarnan Armin van Buuren, sem er með yfir sex milljón læk á fésbókarsíðu sinni, er með útvarpsþátt sem heitir A State of Trance og er honum útvarpað á tugum stöðva um allan heim og á netinu. „Hann er mjög stór í raftónlistarheiminum og ég held ég sé fyrsti Íslendingurinn sem hann gefur út og er spilaður í útvarpsþættinum hans,“ segir Jóhann.

Lög hans hafa þrisvar verið spiluð í útvarpsþætti Van Buurens en hlustað var á síðasta lagið sem spilað var í þættinum tíu þúsund sinnum á Soundcloud á tveimur dögum sem telst ansi gott. Þá var búið að skoða lagið, sem heitir Volcano, þrjú þúsund sinnum á YouTube á tveimur dögum, en lagið er ekki komið út formlega. „Það er mjög gaman að þessu og ég bíð spenntur.“

Jóhann skrifaði undir samning við Abstractive Music, sem er í eigu Sony, í sumar og mun fyrsti afrakstur samningsins líta dagsins ljós í næstu viku. „Það er að koma út plata með nokkrum tónlistarmönnum og ég á tvö lög á þeirra plötu. Samningurinn hljóðar einnig upp á nokkrar smáskífur þannig að ef allt gengur vel verður jafnvel gefin út breiðskífa,“ útskýrir Jóhann.

Fyrsta EP-platan hans, Stone Cold, kom út árið 2009 hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Airport Route Recordings. „Ég fór svo að gefa út reglulega árið 2010 þegar sænski raftónlistarmaðurinn Stana uppgötvaði mig og hann fékk mig til að gera lag fyrir Detox Records í Hollandi sem hefur alltaf verið eitt af mínum uppáhaldsútgáfufyrirtækjum.“

Út frá því kynntist Jóhann hollenskum raftónlistarmanni sem kallar sig Setrise og gerðu þeir lag, sem á endanum barst til Armins van Buuren. „Armin spilaði lagið mitt á stórum tónleikum í Kiev sem voru teknir upp og gefnir út og það var frábært.“

Enn frekari upplýsingar um Jóhann Stein má finna á fésabókarsíðunni hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.