Lífið

Selur leirlist á manhattan

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Hönnunar- og lífsstílsverslunin ABC Home í New York hefur falast eftir verkum Bjarna Sigurðssonar keramíkers í verslun sína á Manhattan.
Hönnunar- og lífsstílsverslunin ABC Home í New York hefur falast eftir verkum Bjarna Sigurðssonar keramíkers í verslun sína á Manhattan. MYND/GVA
Bjarni Sigurðsson keramíker hefur gert samning við eina stærstu hönnunarverslun Bandaríkjanna. Útsendararnir rákust inn fyrir rælni.

Þetta er ofboðslega spennandi. Það eru margir búnir að spyrja mig hvernig í fjandanum ég hafi komist þarna inn,“ segir Bjarni Sigurðsson, keramíker og galleríeigandi, en hönnunar- og lífsstílsverslunin ABC Home í New York hefur falast eftir verkum hans í verslun sína á Manhattan.

ABC Home er ein stærsta og virtasta verslun sinnar tegundar í Bandaríkjunum með áherslu á nýstárlega og vandaða hönnun fyrir heimilið. Það er því talsverður áfangi að koma vörum þar í sölu og við spyrjum því eins og hinir, hvernig kom það til?

„Þrjár konur frá versluninni rákust bara af einhverri rælni inn í Gallerí Kaolin á Skólavörðustíg, þegar þær voru á ferðinni á landinu í vor og keyptu heilan helling af munum eftir mig. Svo höfðu þær samband aftur og vildu funda á Skype. Þar fékk ég meira en klukkutíma til að kynna mig og sýna þeim það sem ég var að gera og fékk svo pöntun frá þeim upp á 530 muni. Þetta er svo bara byrjunin en þær ætla sér að panta meira af smámunum og fleiru,“ segir Bjarni og er að sjálfsögðu ánægður með samninginn. „Það er líka gaman að búa til gjaldeyri fyrir landið, sýna aðeins hvað listin getur gert,“ segir hann kankvís.

Bjarni lauk námi frá Århus Kunstakademi árið 2000 og starfaði síðan að list sinni í Danmörku um árabil. Þar hefur hann skapað sér nafn í leirlistaheiminum og eru verk hans til sölu víða um Danmörku, allt frá listasöfnum á borð við nútímalistasafnið Louisiana og keramiksafnið Grimmerhus til hönnunarverslana á borð við Designer Zoo í Kaupmannahöfn og Árósum og Kalejdoskop í Álaborg.

Bjarni flutti heim árið 2007 og stofnaði Gallerí Kaolin á Skólavörðustíg sem hann rekur ásamt fleiri keramíkhönnuðum. Hann rekur einnig Gallerí Fabúlu í Geirsgötu 7.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.