Innlent

Bíða eftir fyrsta "lækinu“

Símon Birgisson skrifar
Bragi valdimar Skúlason og Brynja þorgeirsdóttir stjórna þættinum orðbragði.
segja í lagi að beygja reglurnar en ekki að brjóta.
Bragi valdimar Skúlason og Brynja þorgeirsdóttir stjórna þættinum orðbragði. segja í lagi að beygja reglurnar en ekki að brjóta. Fréttablaðið/Stefán
„Við erum að teygja og toga tungumálið, leika okkur með það, umfaðma það, knúsa og snúa á hvolf. Það eru liðin þrjátíu ár síðan sjónvarpsþættir voru gerðir um íslenskt mál, og það voru strangir kennsluþættir í framburði. Það var því kominn tími til að gera nýja og skemmtilega þætti um þetta skemmtilega fyrirbæri, tungumálið,“ segir Brynja Þorgeirsdóttir. Hún segir að sér hafi verið bent á norska og sænska þætti af svipuðum toga þar sem fjallað er um tungumálið á frjálslegan og lifandi hátt og fékk Braga Valdimar í lið með sér.

„Brynja hringdi í mig. Hún var með í kollinum að gera þátt um íslensku. Ég þurfti reyndar að hugsa mig tvisvar um en það sem seldi mér á endanum hugmyndina var að þátturinn átti að vera skemmtilegur! Við ákváðum að láta á þetta reyna. Nálgast tungumálið á nýjan hátt og skoða það frá öllum hliðum,“ segir Bragi Valdimar.

„Ég fann strax ákveðna andlega tengingu við Braga því hann ólst upp með nefið ofan í bókum eins og ég, og maður verður dálítið skrítinn af því,“ segir Brynja. „Við erum bæði dálítið skrítin. Hann er frekar feiminn og til baka við fyrstu kynni sem kemur kannski á óvart út af öllu sprellinu í Baggalúti, en eftir því sem við kynntumst kom betur og betur í ljós hversu mikið afbragðseintak af manneskju þetta er, hlýr, skemmtilegur og hæfileikaríkur, og bara góð manneskja. Við göngum eins og einn maður í þessu verkefni,“ segir Brynja.

Lærðuð þið eitthvað nýtt af því að kafa ofan í tungumálið?

Bragi: „Ég veit ekki hvort ég hef lært einhver ósköp en að minnsta kosti styrktist ég í þeirri trú að það sé margt við íslenskuna sem á eftir að skoða. Möguleikar tungumálsins eru í raun ótakmarkaðir ef maður tekur því mátulega alvarlega. Ég held líka að það sé allt í lagi að vera þokkalega stífur þegar kemur að reglunum. Það þarf að passa að við missum ekki tökin á tungumálinu. Það má beygja reglurnar hressilega en ekki brjóta. Þá erum við komin í vond mál. Tungumálið er í raun það eina sem við eigum eftir – þegar fótboltinn er farinn er bara beygingakerfið eftir.“

Brynja: „Tungumálið er svo frjótt, lifandi og skemmtilegt, og það er hægt að gera svo margt sniðugt við það. Það er síbreytilegt og ný orð og orðmyndir verða til á hverjum degi, enda alltaf að verða til ný og ný fyrirbæri sem þarf að finna orð fyrir. Þetta er algjör suðupottur.“

Spurð um uppáhaldsnýyrðið sitt í íslensku segir Brynja:

„Þau eru mörg sniðug, þyrla er til dæmis frábært orð yfir það sem fyrst var kallað þyrilvængja eða helikopter. Það eru samt misheppnuðu nýyrðin sem eru í uppáhaldi hjá mér. Orð eins og „sjálfrennireið“ yfir bíl, „dranghús“ fyrir háhýsi og „togleðurshringur“ sem menn bjuggu til fyrir gúmmídekk. Þetta eru allt einkar skemmtileg orð en fengu aldrei útbreiðslu, af skiljanlegum ástæðum kannski!“

Bragi segist bíða spenntur eftir viðbrögðunum við þættinum á samfélagsmiðlunum. „Já, maður hlýtur að bíða eftir fyrsta „lækinu“, er það ekki?“ segir hann. Spurður hvort „læk“ sé orðið löglegt íslenskt orð segir hann. „Tja, það er allavega með umsóknaraðild, í aðlögunarferli…“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.