Lífið

Íslensk prjónabók á toppnum í Noregi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ágústa heimsótti sjálf forlög í Noregi.
Ágústa heimsótti sjálf forlög í Noregi. Fréttablaðið/GVA
„Bókin mín Hlýjar hendur er í fyrsta sæti á lista yfir tómstundabækur hjá Tanum sem er ein stærsta bókaverslanakeðjan í Noregi. Bókin kom út 26. október og er búin að vera í tvær vikur í fyrsta sæti þannig að hún fór nánast beint á toppinn,“ segir markaðsstjórinn Ágústa Jónsdóttir. Hlýjar hendur naut líka mikilla vinsælda á Íslandi þegar hún kom út árið 2009. Ágústa ákvað því að fara með hana út fyrir landsteinana.

„Það er tilviljun að bókin var gefin út í Noregi. Ég átti erindi í Ósló og fór sjálf og hitti forlög. Ég gerði samning við forlagið Vigmostad og Björke í vor og staðfærði bókina fyrir norskan markað. Ég bjó í Noregi í þrjú ár fyrir nokkrum árum, tala norsku og þykir mjög vænt um landið,“ segir Ágústa. Hún er í skýjunum með viðtökurnar.

„Ég er glimrandi ánægð og þetta er rosalega skemmtilegt. Mér skilst að bókin sé búin að seljast í hátt í tvö þúsund eintökum í Noregi og það lítur út fyrir að fyrsta upplag, sem er þrjú þúsund bækur, seljist upp.“ Ágústa er einnig búin að gefa út bókina Hlýir fætur hér á landi en óvíst er á þessu stigi hvort hún verður líka gefin út í Noregi. Hún stefnir á að nema fleiri lönd með Hlýjar hendur að vopni.

„Mig langar að koma henni út á þýsku og jafnvel ensku. Ég er ekki byrjuð að gera neitt í því en það er markmiðið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.