Innlent

Bílastæðin í miðborginni umsetin þrátt fyrir hækkun

Þorgils Jónsson skrifar
Þrátt fyrir að gjald í skammtímastæði í miðborginni hafi hækkað eru stæðin enn umsetin.
Þrátt fyrir að gjald í skammtímastæði í miðborginni hafi hækkað eru stæðin enn umsetin. Fréttablaðið/Anton
Bílastæðanýting við Laugaveg hefur ekki minnkað að ráði þrátt fyrir hækkun bílastæðagjalda í ágúst í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Bílastæðasjóðs.

Með nýju gjaldskránni hækkaði gjald í skammtímastæði á gjaldsvæði 1 úr 150 krónum á klukkustund upp í 225 og gjaldskyldutími á laugardegi lengdist um þrjá tíma.

Meðal raka þeirra sem voru andsnúnir hækkuninni var að með þessu væri verið að hrekja fólk á einkabílum úr miðborginni. Kannanir Bílastæðasjóðs leiða hins vegar í ljós að nýting stæðanna fyrri hluta dags jókst úr 92 prósentum upp í 98 prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra, í apríl fór nýtingin eilítið niður á við, en stóð engu að síður í 92 prósentum, og í júlí fór nýtingin niður í 83 prósent, en þá var hluti Laugavegar göngugata. Sé litið til mælinga í eftirmiðdaginn hækkaði nýtingin bæði í apríl og júlí.

„Við hækkuðum verðið til að auka flæði, en það hefur ekki breyst á gjaldsvæði 1, þannig að þetta dugði ekki til,“ segir Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs.

Aðspurður hvort frekari hækkun væru í kortunum sagði Karl að verið væri að skoða framhaldið.

„Við ræðum á hverjum fundi hvað við getum gert til að auka flæðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×