Lífið

Geðveikar pylsur

Pylsugerðin opnar í dag samnefndan veitingastað. Tvö af hópnum eru Þórunn Hannesdóttir og Unnsteinn Jóhannsson.
Pylsugerðin opnar í dag samnefndan veitingastað. Tvö af hópnum eru Þórunn Hannesdóttir og Unnsteinn Jóhannsson. Mynd/GVA
Í dag laugardag verður veitingastaðurinn Pylsugerðin opnaður. Matgæðingar landsins geta þó bara gætt sér á veitingum þar í dag því staðurinn er svokallaður „pop up“ veitingastaður.

Eins og nafnið gefur til kynna verður boðið upp á heimagerðar pylsur og meðlæti við hæfi en allur ágóði dagsins rennur til Geðdeildar Landspítalans. Að sögn Þórunnar Hannesdóttur, eins aðstandenda veitingastaðarins, var ákveðið að hafa matseðilinn frekar einfaldan en um leið spennandi.

„Við munum bjóða upp á tvær tegundir af ljúffengum pylsum, aðra úr nautakjöti og hina úr svínakjöti. Í þær verða síðan blönduð ýmis krydd og fleira góðgæti. Auk þess verður boðið upp á heimagert hrásalat og kók í gleri með lakkrísröri.“ Tvær stærðir diska eru í boði, annar á 500 kr. og hinn á 1.000 kr. Auk þess verður styrktarbaukur á staðnum fyrir frjáls framlög.

Hópurinn sem stendur að veitingastaðnum kallar sig Pylsugerðina og samanstendur af fólki sem hittist reglulega til þess að búa til eigin pylsur. „Kærasti minn er breskur og átti í erfiðleikum með að finna almennilegar pylsur hér á landi. Við ræddum við vini okkar og ákváðum að taka málin í okkar hendur og hefja eigin pylsugerð.“

Sem fyrr segir mun Geðdeild Landspítalans njóta alls ágóða dagsins. Þórunn segir að verið sé að vinna að endurbótum við deildina og hópurinn vilji styrkja það frábæra framtak. „Flestir tengjast geðdeildinni á einn eða annan máta og því er þetta málefni sem mikilvægt er að styðja vel við. Fjölmörg fyrirtæki hafa einnig komið að verkefninu með okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Við búumst við góðri aðsókn enda höfum við verið dugleg að bjóða vinum og kunningjum. Um leið höfum við hvatt þá alla til að bjóða fleirum með sér. Því fleiri sem koma, því meiri verður ágóði Geðdeildarinnar.“

Pylsugerðin verður til húsa á Ljósvallagötu 8 í Reykjavík og verður opin milli kl. 15-17. Enginn posi verður á staðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.