Lífið

Baltasar gerir fangelsismynd með Universal

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Tilboðunum rignir yfir Baltasar. Hann vill frekar gera myndir sem vekja áhuga hans en selja sálu sína stórum kvikmynda-verum.
Tilboðunum rignir yfir Baltasar. Hann vill frekar gera myndir sem vekja áhuga hans en selja sálu sína stórum kvikmynda-verum.
Leikstjórinn Baltasar Kormákur er kominn á góðan stað í kvikmyndabransanum vestan hafs. Hann hefur tökur á myndinni Everest strax eftir áramót og skrifaði nýverið undir samning hjá kvikmyndarisanum Universal um að gera fangelsismynd.

„Ég flýg út til Nepal 6. janúar og byrja á tökum á kvikmyndinni Everest tveimur dögum seinna. Ég verð þar í tæpan mánuð, fer síðan til Ítalíu og tek upp í Dólómíta-fjöllum. Því næst verða einhverjar tökur í London og svo kem ég hingað heim þar sem ég verð aðallega í eftirvinnslu á myndinni,“ segir leikstjórinn Baltasar Kormákur. Hann er búinn að tryggja sér fjármagn til að taka upp myndina Everest sem byggð er á bókinni Into Thin Air eftir Jon Krakauer.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Jake Gyllenhaal, Josh Brolin, John Hawkes og Jason Clark. Ekki er þó víst að Íslendingar fái að berja þessar stórstjörnur augum.

„Það gætu orðið einhverjar tökur á Íslandi en óljóst er hvort leikararnir koma til landsins. Það fer mikill tími í eftirvinnslu á myndinni og hún er ansi flókin. Stór hluti er unninn í tölvu og auk þess er myndin í þrívídd. Það eru hátt í hundrað manns sem vinna við eftirvinnsluna þannig að það er allavega eitt ár þangað til ég skila af mér myndinni. Það væri ánægjulegt að ná henni í kvikmyndahús jólin 2014 en það er langsótt að það takist,“ segir Baltasar. Hann er með mörg járn í eldinum, næstum því of mörg, og veit ekki nákvæmlega hvaða verkefni hann ræðst næst í þegar tökum á Everest lýkur.

„Universal er búið að semja við mig um að gera fangelsismynd sem ég framleiði, skrifa og hugsanlega leikstýri ef ég kæri mig um. Það er spennandi verkefni. Ég held samt að ég reyni að komast í víkingamyndina sem ég ætla að gera næst sem er öll tekin á Íslandi. Svo vil ég mynda Grafarþögn og Sjálfstætt fólk og sjónvarpsseríuna Ófærð og aðra í tengslum við tölvuleikinn Eve Online,“ segir Baltasar. Auk þess að vinna að eigin hugmyndum fær hann reglulega tilboð frá stóru kvikmyndaverunum vestan hafs.

„Ég hef hafnað þeim hingað til. Ég fékk til dæmis boð um að leikstýra Fast & the Furious 7 en ég hafnaði því. Ég hafði einfaldlega ekki áhuga. Það er mjög góð tilfinning að vera í þeirri stöðu að segja nei. Ég vil gera verkefni sem vekja áhuga minn. Ég vil fara í metnaðarfyllri verkefni. Það er frábær staða að fá þessi boð en maður getur fest í því að gera risamyndir og það er lúppa sem maður kemst ekki auðveldlega út úr. Það er eins og að taka í höndina á djöflinum. Maður selur sig allan. Það er gott að finna hitann og verma sig við hann en ég forða mér áður en ég brenni mig. Ég vil ekki gera eitthvað sem gerir mömmu ekki stolta af mér og auðvitað vill maður að fólkið í kringum mann sé ánægt með það sem maður er að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.