Lífið

Todmobile og Jon Anderson í Eldborg

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Jon Anderson, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Andrea Gylfadóttir eru hér á æfingu fyrir tónleikana.
Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Jon Anderson, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Andrea Gylfadóttir eru hér á æfingu fyrir tónleikana. fréttablaðið/daníel
„Ég hlakka mikið til og við tökum fullt af lögum sem fólk þekkir,“ segir enski tónlistarmaðurinn Jon Anderson, sem er líklega best þekktur sem fyrrverandi söngvari hljómsveitarinnar Yes. Hann kemur fram sem sérstakur gestur á tónleikum Todmobile sem fram fara í Eldborgarsalnum í Hörpu á föstudagskvöldið.

„Við Jon höfum þekkst í nokkur ár. Hann var að leita að útsetjara og ég sendi honum verk eftir mig. Þá varð hann mjög hrifinn af minni vinnu og síðan þá höfum við haldið sambandi,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarmaður og meðlimur Todmobile.

„Ég heimsótti Jon til Los Angeles árið 2011 og þá ræddum við mögulegt tónleikahald saman og nú er afrakstur þeirrar umræðu að koma í ljós á föstudagskvöldið,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Saman sömdu þeir lagið Wings of Heaven sem verður flutt á tónleikunum.

„Á tónleikunum ætlum við að flytja öll okkar þekktustu lög en einnig ætlum við að spila talsvert af lögum hljómsveitarinnar Yes eins og Roundabout, Owner of a Lonely Heart og Heart of the Sunrise, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Þorvaldur Bjarni.

„Þetta verða heljarinnar tónleikar og við flytjum fjölbreytt efni, meðal annars flytjum við verkið Awaken eftir Yes sem verður mjög skemmtilegt,“ bætir Jon við, sem er mjög ánægður með að vera kominn til Íslands.

Todmobile er þessa dagana á fullu við að vinna plötu sem væntanleg er fljótlega á næsta ári.

„Við erum með nýtt lag í spilun og það eru fleiri lög á leiðinni. Þetta er einnig önnur platan sem Eyþór Ingi tekur þátt í með okkur,“ bætir Þorvaldur við.

Jon Anderson segist styðja íslenska landsliðið í knattspyrnu. „Ég ætla að fylgjast með landsleiknum og mun mögulega kíkja á völlinn. Áfram Ísland,“ segir Jon Anderson.

Tónleikarnir, sem fram fara í Eldborgarsalnum í Hörpu, hefjast klukkan 22.00 sem er örlítið seinna en gerist og gengur með tónleika.

„Við seinkuðum tónleikunum aðeins út af landsleiknum.“

Miðasala er á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.