Lífið

Húðflúrleikur af stað í Bíó Paradís

Ása Baldursdóttir hjá Bíó Paradís hvetur fólk til að setja mynd af draumahúðflúrinu í athugasemdakerfi Bíós Paradísar á Facebook.
Ása Baldursdóttir hjá Bíó Paradís hvetur fólk til að setja mynd af draumahúðflúrinu í athugasemdakerfi Bíós Paradísar á Facebook. MYND/NANNADÍS
„Í tilefni frumsýningar á kvikmyndinni The Broken Circle Breakdown mun Bíó Paradís, í samstarfi við Reykjavik Ink, vera með leik þar sem hægt er að vinna boðsmiða á myndina auk gjafabréfs hjá Reykjavik Ink að verðmæti 30.000 krónur,“ segir Ása Baldursdóttir hjá Bíói Paradís, en kvikmyndin verður frumsýnd föstudaginn 15. nóvember.

„Húðflúr er eitt af meginþemum myndarinnar og var húðflúrmeistarinn Emilie Guillaume fenginn til að hanna húðflúr í myndinni. Þar sem húðflúr er svona áberandi í myndinni ákváðum við að fara í samstarf við húðflúrstofu,“ útskýrir Ása.

„Þannig getur fólk birt mynd í athugasemdakerfinu hjá okkur á Facebook af sínu draumahúðflúri – húðflúrið sem flestum líkar við vinnur boðsmiða og inneign á Reykjavík Ink,“ segir Ása, létt í bragði.

The Broken Circle Breakdown hefur unnið til fjöldamargra verðlauna, meðal annars áhorfendaverðlauna á Berlin Film Festival, Norwegian International Film Festival og Cph:Pix, og Label Europa Cinemas verðlaunanna á Berlin Film Festival.

Myndin er framlag Belgíu til Óskarsverðlaunanna 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.