Lífið

Norsk kanóna fengin til að dæma í Skrafli

Sigurður Arent og Jóhannes Benediktsson elska Skrafl.
Sigurður Arent og Jóhannes Benediktsson elska Skrafl. Fréttablaðið/Daníel
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, fjölmiðlafólkið Björn Teitsson og Malín Brand, myndlistarkonan Bjargey Ólafsdóttir og flautuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar Melkorka Ólafsdóttir eru meðal keppenda á fyrsta Íslandsmeistaramótinu í Scrabble, eða Skrafli, sem haldið verður um helgina, af Skraflfélagi Íslands.

„Leiknar verða sex umferðir í riðlum hvorn daginn þar sem einn keppir á móti einum. Keppnin hefst stundvíslega klukkan ellefu báða dagana,“ segir Sigurður Arent, einn skipuleggjenda skraflmótsins sem haldið verður á veitingastaðnum Happ á Höfðatorgi.

„Í tilefni af fyrsta mótinu hér á landi barst okkur liðsauki frá Noregi en Taral Guldahl frá Norsk Scrabbleforbund mun sjá um dómgæslu. Guldahl er algjör kanóna í skraflheiminum,“ segir Sigurður jafnframt.

„Fyrsta Scrabble-spilið á Íslandi var Stafa-Spilið sem var gefið út árið 1983 og svo Krossgátuspilið árið 1984. Scrabble lét hins vegar bíða eftir sér til ársins 1990 en hefur síðan þá verið grundvallarspil í safni sumarbústaðaeigenda og annarra spilara,“ segir Sigurður sem sjálfur er mikill áhugamaður um leikinn.

„Að skrafla hefur sömu merkingu og að skrafa eða tala saman og það er svolítið góð lýsing á þessu samtali sem á sér stað í hverjum leik, að minnsta kosti jafn góð og sögnin „to scrabble“ sem þýðir að róta eða fálma eftir einhverju,“ útskýrir Sigurður.

Verðlaun verða veitt fyrir tíu efstu sætin auk vinninganna fyrir stigahæsta leikinn og flest bónus-orð (sjö stafa orð) en vinningarnir eru frá Forlaginu, Hamborgarafabrikkunni og fleirum.

„Mest er þó auðvitað vert um heiðurinn sem fylgir því að vera Íslandsmeistari í þessari þjóðaríþrótt Íslendinga,“ segir Sigurður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.