Innlent

Íslenska kúfskelin er 507 ára

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Halldór Pálmar Halldórsson líffræðingur hefur rannsakað kúfskelina. Skelin er 507 ára en ekki 405 ára eins og áður var talið.
Halldór Pálmar Halldórsson líffræðingur hefur rannsakað kúfskelina. Skelin er 507 ára en ekki 405 ára eins og áður var talið. Mynd/Halldór Pálmar Halldórsson
Kúfskelin sem fannst við norðurströnd Íslands árið 2006 er mun eldri en talið var í fyrstu. Vísindamenn hafa nú komist að því að kúfskelin er í raun 507 ára gömul og ekki 405 ára eins og áður var haldið fram. Skelin er langlífasta dýr jarðar og þegar hún drapst árið 2006 fékk hún viðurkenningu þess efnis í Heimsmetabók Guinness.

Aldur skeljarinnar er reiknaður með því að telja hringi hennar, líkt og þekkist með tré, en var vitlaust reiknaður í upphafi þar sem árhringirnir voru það þétt saman að erfitt var að greina nákvæman aldur.

"Við höfðum rangt fyrir okkur í byrjun og vorum kannski örlítið fljótfærir þegar við birtum niðurstöðurnar fyrir nokkrum árum. En nú erum við alveg viss um að við erum búin að komast að hinum rétta aldri," segir Paul Butler, einn þeirra vísindamanna sem rannsakað hafa kúfskelina.

Kúfskelin var síðar nefnd Ming, eftir Mingveldinu í Kína, en skelin vaknaði til lífsins á svipuðum tíma og keisaraættin komst til valda.

Vísindamennirnir segja að með hjálp kúfskeljanna sé einnig hægt að komast að því hvernig hitastig sjávar hafi þróast síðustu árhundruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×