Lífið

Björgvin fullkomnar þrennuna

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Björgvin Halldórsson á sviði.
Björgvin Halldórsson á sviði. Mynd/Rósa
„Þetta er svona lokahnykkurinn á þessum þríleik,“ segir Björgvin Halldórsson tónlistarmaður sem gefur út sína þriðju dúettaplötu í nóvember. Á plötunni, sem heitir Duet 3 syngja með honum söngvarar eins og Eyþór Ingi, Andrea Gylfadóttir, Bubbi Morthens, Eivör Pálsdóttir og Arnór Dan, ásamt mörgum fleirum.

„Við eigum svo mikið af flottum söngvurum sem mig langaði til þess að syngja með,“ segir Björgvin.

Á henni má finna lög eftir íslenska höfunda eins og Bubba Morthens, Björn Jörund, Eivöru og Einar Scheving, í bland við erlend tökulög á borð Are You Lonesome Tonight, sem Elvis Presley gerði svo eftirminnilegt.

Vinnsla plötunnar var einkar áhugaverð því þó svo að platan sé dúettaplata þá sungu söngvararnir ekki alltaf saman, í sama rýminu. „Eivör söng sitt lag í Kaupmannahöfn og Dísella söng sitt lag í New York, svo er þetta bara sent á milli rafrænt. Tæknin er orðin svo rosaleg, þetta hefur breyst mikið frá því ég byrjaði í bransanum árið 1970,“ útskýrir Björgvin.

Björgvin hafði í hyggju að vinna plötuna síðastliðið sumar en það dróst á langinn og lauk vinnunni núna í október. „Platan dróst sökum annarra verkefna en svo ákváðum við að keyra verkefnið í gang og ég sé alls ekki eftir því. Ég er í skýjunum yfir plötunni.“

Platan sem heitir Duet 3, kemur út þann 15. nóvember næstkomandi. „Það er líklegt að við fylgjum plötunum eftir með tónleikum en það gerist líklega ekki fyrr en eftir jól sökum mikilla anna,“ segir Björgvin, sem er þessa dagana á fullu að skipuleggja Jólagestina sem fram fara í Laugardalshöll þann 14. desember. Þetta er sjöunda árið í röð sem Jólagestir Björgvins fara fram.

Björgvin Halldórsson og Bubba Morthens deila sviði en þeir syngja saman á plötunni.mynd/ari magg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.