Lífið

Bjartmar bjargar löskuðum íbúðum

Bjartmari leiðist aldrei enda mjög uppátækjasamur.
Bjartmari leiðist aldrei enda mjög uppátækjasamur. Fréttablaðið/Stefán
„Ég stofnaði lítið fyrirtæki fyrir einu ári og kaupi eina og eina íbúð og geri upp. Í raun og veru er þetta björgun fasteigna í lélegu ástandi en þetta er skemmtileg aukabúgrein sem hentar vel með listinni,“ segir leikarinn og leikstjórinn Bjartmar Þórðarson. Hann hefur alltaf haft áhuga á innanhússhönnun og er algerlega sjálflærður í faginu.

„Ég á föður sem er ofsalega handlaginn og hefur kennt mér ýmislegt. Þetta snýst um að prófa sig áfram, vanda sig, fá réttar upplýsingar og hafa gott auga fyrir hlutunum. Ég leyfi rýminu að ráða för þegar ég hanna það og reyni að sjá hvað það kallar á í staðinn fyrir að troða einhverju þar inn sem ekki passar,“ segir Bjartmar. Hann finnur íbúðirnar sjálfur á fasteignavefjum landsins og nýtur sín mjög í starfinu.

Kósí í íbúð sem Bjartmar er nýbúinn að gera upp á Seltjarnarnesi.
„Þetta er áhugamál og ástríða. Mér finnst þetta rosalega gaman. Það er líka ánægjulegt þegar maður getur tekið vinnustimpilinn af vinnunni – þá nýtur maður hennar meira.“ 

Leikarinn knái segir vissa hvíld fylgja hönnunarstarfinu. Hann þarf svo sannarlega á hvíldinni að halda þessa dagana. Hann og maður hans, Snorri Sigurðarson, reka hótelið Rey Apartments í miðbænum þar sem viðskiptin blómstra. Þá er Bjartmar einnig að leikstýra Verslingum í söngleiknum Með allt á hreinu sem frumsýndur verður í Austurbæ í febrúar sem og að skemmta á jólahlaðborði á Broadway. 

„Það er ákveðin heilahvíld að gera upp íbúðir þegar ég er búin að vera á suðupunkti að pæla í handritum. Maður notar aðrar stöðvar við hönnunina og því hvílist maður vel.“ 

Huggulegt svefnherbergi.
Lífið á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.