Innlent

Pólitískar væringar í Rangarþingi ytra

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Deilur eru innan hreppsnefndar Rangárþings ytra. Fulltrúar minnihlutans kröfðust þess á síðasta fundi, að Drífu Hjartardóttur sveitarstjóra yrði vikið frá störfum tímabundið.
Deilur eru innan hreppsnefndar Rangárþings ytra. Fulltrúar minnihlutans kröfðust þess á síðasta fundi, að Drífu Hjartardóttur sveitarstjóra yrði vikið frá störfum tímabundið. Fréttablaðið/GVA
Minnihlutinn í sveitarstjórn Rangárþings ytra lagði til á hreppsnefndarfundi síðasta föstudag að Drífu Hjartardóttur sveitarstjóra yrði vikið tímabundið frá störfum og ástæðan fyrir uppsögn starfsmanns á skrifstofu sveitarfélagsins verði rannsökuð.

Oddviti minnihlutans segir pólitískar ástæður liggja að baki uppsögninni þar sem umræddur starfsmaður er varafulltrúi Á-listans. Meirihluti felldi þá tillögu.

„Sveitarstjórinn sagði við mig á fundi að það væri ekki hægt að hafa kjörinn fulltrúa á skrifstofunni,“ segir Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Á-lista, sem hefur verið í minnihluta síðan meirihlutinn sprakk fyrir um ári. „Það er þetta sem við gerum athugasemdir við. Það má ekki segja fólki upp vegna pólitískra skoðana.“

Guðfinna segir einnig að starfsmaðurinn heyri undir skipulagsfulltrúa og hafi sveitarstjóri gengið fram hjá honum við uppsögn starfsmannsins. Að hennar sögn starfa að minnsta kosti þrír starfsmenn hjá sveitarfélaginu núna sem eru á framboðslista annaðhvort D- eða Á-lista. „Þetta sendir slæm skilaboð til hinna starfsmannanna.“

Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, oddviti D-lista, þvertekur fyrir það að pólitískur ásetningur hafi legið að baki uppsögninni. Hann vill í raun meina að engin raunveruleg uppsögn hafi átt sér stað þar sem um tilraunaverkefni hafi verið að ræða. „Það var farið í gang með verkefni sem stóð í eitt ár og því fylgdi tímabundin ráðning sem gilti til 31. október.“ 

Guðmundur segir málið notað til þess að efna til ófriðar. 

Guðfinna segist hins vegar aldrei hafa heyrt minnst á nokkurt tilraunaverkefni. „Það er einhver eftiráskýring,“ fullyrðir hún. 

„Þegar starfið var auglýst var lýst eftir starfsmönnum til að vinna í ár með möguleika á áframhaldandi ráðningu,“ útskýrir Guðfinna. Sveitarstjórn hafi síðan ákveðið að ráða einstaklinginn áfram og samþykkt að ráðningin gilti út árið 2013. 

„Þess vegna kom þetta eins og köld vatnsgusa í andlitið á honum að vera skyndilega sagt upp þegar gert er ráð fyrir starfinu á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.“ Hún segir að verkefnin sem starfsmaðurinn sinnti hverfi ekki og því sé ekki hægt að kalla þau tilraunaverkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×