Lífið

Yfirhönnuður Calvins Klein var á Íslandi

Sara McMahon skrifar
Fransico Costa segist hafa lært á tískuiðnaðinn hjá La Renta.
Fransico Costa segist hafa lært á tískuiðnaðinn hjá La Renta. AFP/NordicPhotos
Fatahönnuðurinn Francisco Costa var staddur hér á landi í október. Costa er yfirhönnuður dömulínu tískuhússins Calvin Klein og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2001.

Costa var í fríi á Íslandi en tók sér þó stund til að hitta íslenska fatahönnuði í Norræna húsinu og svara spurningum þeirra.

Costa starfaði hjá fatahönnuðinum Oscar de la Renta í fimm ár áður en hann hóf störf hjá Calvin Klein. Hann segir Renta vera læriföður sinn og þakkar honum velgengni sína innan tískuiðnaðarins.

„Hjá honum lærði ég hvernig iðnaðurinn virkar, hann kenndi mér allt um gæði, stíl og kjólahönnun. Hjá honum lærði ég einnig að vera sjálfstæður,“ segir Costa þegar hann var spurður um tímann hjá de la Renta.

Í dag sendir Costa frá sér fjórar línur á ári hverju, en hver lína inniheldur allt að sjötíu alklæðnaði sem eru svo sýndir á tískuvikunum. Um er að ræða hinar hefðbundnu haust- og vorlínur auk millilína.

„Við hönnum 600 stíla í hvert sinn. Við veljum síðan 300 bestu stílana og úr þeim eru um 50 til 70 alklæðnaðir sýndir á tískuvikunum, en um hundrað fara í verslanir,“ segir hann.

Spurður út í vinnuálagið segist hann vinna sleitulaust alla daga ársins. „Þetta er stanslaus vinna, alla daga. Óslitin saga frá einni línu til annarrar og við hefjum vinnu við næstu línu á meðan verið er að sýna þá fyrri.“

Þegar Costa hóf fyrst störf hjá Calvin Klein réði hann til sín sölumann í verslun tískuhússins á Madison Avenue til að aðstoða sig við hönnun fyrstu línunnar. Þetta gerði hann til að kynnast viðskiptavinum tískuhússins og þörfum þeirra nánar og segir það hafa nýst sér vel.

Þegar hann er að lokum spurður út í hönnunarferlið hjá Calvin Klein segir hann: „Maður þarf að vera opinn fyrir hugmyndum og forvitinn. Svo verður maður að vera óragur við að breyta og betrumbæta stanslaust.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.