Skoðun

Alvara leiksins

Ólafur Björn Tómasson skrifar
Frá blautu barnsbeini hefur fátt reynst mér jafn fjarstæðukennt og fótbolti. Óþrjótandi áhugi kynbræðra minna hefur ætíð verkað sem eilíft hringsól kringum þá grunnhugmynd að negla bolta í net. Það er þessi ofureinfaldleiki sem flækist fyrir mér og hefur það gerst oftar en einu sinni að ég hef hökt á spurningunni: „Hvaða liði heldurðu með í ensku?“ og þar með bind ég enda á mögulegan félagsskap við hvern sem spyr.

Eftir á velti ég því fyrir mér hvort ég hafi tapað vin eða grætt tíma sem annars yrði varið í vangaveltur um hvernig Brasilíumanni muni ganga að sparka knetti í átt að fölum Hollendingi á laugardögum.

Haffi í vinnunni vill meina að ef þú getur talað um fótbolta getir þú talað við hvern sem er, að sparkspjall sé hið raunverulega lingua franca vorra tíma.

Það er alls ekki galin hugmynd heldur þegar maður sér tvo gjörsamlega ókunnuga menn ræða um „leikinn“ eins og þeir hafi fæðst hlið við hlið. Síðan er sú staðreynd að fótboltamállýsku er að finna í daglegu máli jafnt sem í málefnum líðandi stundar hjá fréttaveitum landsins.

Boltinn er víst farinn að rúlla, það er allt að gerast í boltanum, hlutum er snúið úr vörn í sókn þar til allt heila klabbið er flautað af. En nú er ég farinn að missa marks og það ber að senda mig beint á bekkinn.

Strax í fyrsta bekk grunnskóla voru áhrif fótbolta í daglegu lífi áberandi. Annaðhvort hélstu með Manchester eða Liverpool, svo einfalt var það.

Fyrir strák sem fylgdist ekki með íþróttinni og meira að segja æfði samkvæmisdans varð hann að ansi auðveldu skotmarki í frímínútum.

Heiðarleg tilraun var gerð til að halda með Manchester, síðan Liverpool, síðan Arsenal af því þeir voru með fallbyssu í merkinu sínu. Fátt annað gerðist en að ég kveikti á sjónvarpinu eftir hádegi nokkra laugardaga í röð, sá gæja í rauðum treyjum hlaupa grænt grasið niður og fannst það leiðinlegt.

Eftir jólin sá ég „The Empire Strikes Back“ í fyrsta skipti og hætti frekari tilraunum til að berja áhugasvið mitt til hlýðni við óskir bekkjarbræðra minna.

Hins vegar þar sem ég var Star Wars-njörður sem æfði samkvæmisdansa var ég frekar oft barinn af bekkjarbræðrum mínum.

Fótbolti er mér ekki hitamál, hatursmál eða eitthvað sem vekur upp slæmar minningar um einelti af hálfu HK-inga (sem voru meira en hálfur bekkurinn). Það er algjört áhugaleysi sem vekur hjá mér forvitni um hvernig ég get ekki tekið heils hugar þátt í iðju svo rótgróinni í kringum mig.

En að sjálfsögðu ver ég ekki of miklum tíma í slíkar vangaveltur.

Þannig spila ég ekki leikinn.




Skoðun

Sjá meira


×