Lífið

Dansa af sér rassgatið á Park

Freyr Bjarnason skrifar
Össur Hafþórsson á nýjasta skemmtistað sínum, Park.
Össur Hafþórsson á nýjasta skemmtistað sínum, Park. fréttablaðið/pjetur
„Þessi staður er fínn fyrir fólk sem vill koma og dansa af sér rassgatið,“ segir Össur Hafþórsson.

Hann opnar í kvöld skemmtistaðinn Park á Hverfisgötu 20 þar sem Hverfisbarinn var eitt sinn til húsa. Þar verður elektrónísk danstónlist í boði og ætti fólk því að geta sleppt fram af sér beislinu í trylltum dansi. Auk Össurar eru kona hans Linda Mjöll Þorsteinsdóttir og Eyvindur Eggertsson eigendur staðarins.

„Faktorý var með hliðarsal helgaðan raftónlist og var að sinna því mjög vel. Eftir að sá staður hætti vantaði góðan dansstað á þessu efra svæði með alvöru hljóðkerfi,“ segir Össur um Park, sem býður upp á kerfi af tegundinni Function One frá Óla ofur.

Össur átti áður skemmtistaðinn Sódómu en seldi hann árið 2010. Núna rekur hann Bar 11 á Hverfisgötu og Bar 7 á Frakkastígnum, auk húðflúrsstofunnar Reykjavík Ink á Frakkastíg ásamt Lindu Mjöll.

Fríar veitingar verða í boði á Park í kvöld milli kl. 21 og 23 og er öllum boðið. „Það eru allir velkomnir, ekkert VIP. Vonandi sjáum við sem flesta,“ segir Össur.

Arnar og Frímann úr Hugarástandi koma fram í kvöld, auk BenSol. Á laugardaginn mætir Alex Session frá London. Hann hefur notið vinsælda síðustu tíu ár og kom lengi fram undir nafninu Noisses. Sama kvöld kemur plötusnúðurinn Margeir fram.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.