Lífið

Nite Jewel heillast af Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Nite Jewel kemur fram á Iceland Airwaves á Harlem í kvöld.
Nite Jewel kemur fram á Iceland Airwaves á Harlem í kvöld. Mynd/Angel Ceballos
„Við erum sálufélagar og náum ótrúlega vel saman,“ segir tónlistarkonan Ramona Gonzales úr hljómsveitinni Nite Jewel sem kemur fram á Iceland Airwaves-hátíðinni í kvöld. Bandaríski dúettinn er skipaður kærustuparinu Ramonu, sem syngur og semur lögin, og upptökustjóranum og útsetjaranum Cole M. Greif-Neill.

Sveitin á rætur að rekja til Los Angeles en hún leikur elektróníska/tilraunakennda tónlist með indí-ívafi.

„Ísland er mjög fallegt land en það er samt pínukalt hérna. Við fórum Gullna hringinn og það var yndislegt,“ segir Ramona hæstánægð með Íslandsdvölina.

Nite Jewel er önnur tveggja sveita sem unnu samkeppni á vegum Reyka Vodka um að spila á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves. „Við sendum lag í keppnina og svo bara vorum við allt í einu á leiðinni til Íslands,“ segir Ramona um ferlið. Keppnin var haldin í samstarfi við Grooveshark-tónlistarveituna.

Hljómsveitir sendu inn prufuupptökur og svo valdi nefnd á vegum Iceland Airwaves sigursveitirnar tvær. Þær unnu vikuferð til Íslands þar sem allur kostnaður verður greiddur og fá að koma fram á hátíðinni.

„Við vorum á tónleikaferðalagi um Asíu en eftir Íslandsdvölina ætlum við aftur til Los Angeles að klára nýjustu plötuna okkar sem kemur vonandi út fljótlega,“ segir Ramona aðspurð um framhaldið.

Nite Jewel kemur fram á skemmtistaðnum Harlem í kvöld klukkan 23.20.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.