Street dans keppni fór fram í íþróttahúsinu við Seljaskóla á laugardag. Þar var meðal annars keppt í breikdansi, hip hop og popping. Dansskóli Brynju Pétursdóttur stóð fyrir viðburðinum og var bandaríski danshöfundurinn Emilio Austin Jr gestadómari.
Ástfangin af waacking
Hrafnhildur Svala Sigurjónsdóttir fór með sigur af hólmi í waacking dansi, en hún keppti einnig í dancehall og í hópaflokki með Diamonds danshópnum.
„Ég byrjaði í ballett þegar ég var sex ára og skipti svo yfir í djassballett. Ég byrjaði ekki að æfa waacking fyrr en á síðasta ári og varð strax ástfangin af dansinum, þetta er það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Hrafnhildur Svala sem æfði stíft í allt sumar. Hún undirbjó sig meðal annars með því að horfa á dansmyndbönd á Youtube.
Hrafnhildur hóf nám á náttúrufræðibraut við Menntaskólann í Reykjavík í haust og hyggur á læknisnám í framtíðinni. „Það er svolítið erfitt að vera svona mikið í dansi með náminu, en ég reyni bara að skipuleggja mig vel,“ segir hún.
Æfðu í viku
Danshópurinn Cyborgs bar sigur úr býtum í hópaflokki. Hallmann Sigurðarson, Stefán Halldór og Brynjar Dagur Albertsson skipa hópinn, en piltarnir eru á aldrinum tólf til fimmtán ára.
Hallmann hefur æft popping í tvö ár en hópurinn hefur æft saman í rúmt ár. „Ég sá myndband af popping á netinu og fór að æfa mig sjálfur. Svo fann ég Dansskóla Brynju og byrjaði að æfa hjá henni, ég kynntist Stefáni og Brynjari þar,“ útskýrir Hallmann. Hann segir keppnina í ár hafa verið sérlega harða.
„Við náðum bara að æfa vikuna fyrir keppni. Við búum langt frá hverjum öðrum sem gerir æfingar flóknar, þannig að sigurinn kom skemmtilega á óvart,“ segir hann að lokum.
Hörð keppni
Anastasiya Pulgari, 23 ára, fór með sigur úr býtum í hip hop dansi. Hún hefur æft hip hop dans frá árinu 2005 og starfaði sem danskennari í heimalandi sínu, Úkraínu. Hún flutti til Íslands ásamt manni sínum fyrir tveimur árum síðan.
„Þetta var í fyrsta sinn sem ég dansaði frá því að ég flutti hingað. Hinir dansararnir voru virkilega góðir og keppnin var hörð. Danssporin voru fljót að rifjast upp fyrir mér um leið og ég var komin á dansgólfið, þau voru vel geymd í vöðvaminninu,“ segir hún og hlær.
Lærði af netinu
Fim Suwit Chotnok, 18 ára, bar sigur úr býtum í breikdansi. Hann hefur æft breikdans frá árinu 2008. „Ég byrjaði á því að læra með því að horfa á myndbönd á netinu, svo fór ég í dansskóla. Mér finnst mjög gaman að dansa og er hrifnastur af hörðum „move-um“ og svo lífstílnum sem fylgir breikdansinum.“
Spurður hvort hann eigi sér uppáhalds dansspor svarar Fim neitandi. „Nei, ég frístæla bara og læt tónlistina ráða för.“
Skemmtilegasta sem ég geri
Brynjar Dagur Albertsson sigraði í popping, en hann er einnig meðlimur í Cyborgs sem sigruðu í hópakeppni. Hann hefur æft breikdans í nokkur ár en er tiltölulega nýbyrjaður að æfa popping.
„Ég sá þetta fyrst í bíómynd og ákvað að reyna að herma eftir. Ég fór svo í dansvinnustofu og lærði þetta almennilega. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri.“ Hann segir keppnina í ár hafa verið sérlega harða. „Það var mjög mikið af góðum dönsurum að keppa. Þetta var alls ekki létt.“
Ástfangin af waacking dansinum
Sara McMahon skrifar