Íslenski boltinn

Framtíðin er ekki alveg í mínum höndum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brynjar mun þurfa að segja Garðari Jóhannssyni til ef hann fer í Stjörnuna.
Brynjar mun þurfa að segja Garðari Jóhannssyni til ef hann fer í Stjörnuna. Mynd/Valli
„Ég vil sem minnst um málið segja eins og staðan er núna,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson aðspurður um hvort hann væri á leið í Stjörnuna sem spilandi aðstoðarþjálfari.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa Stjörnumenn áhuga á Brynjari Birni. Rúnar Páll Sigmundsson, fyrrum aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, var ráðinn sem aðalþjálfari fyrr í vikunni og hann leitar nú að aðstoðarmanni.

„Ég er í fríi á Flórída og kem heim eftir helgina. Þá mun ég taka stöðuna almennilega og fara yfir mín mál. Ég er að njóta þess að vera í fríi með fjölskyldunni en það er ansi oft þannig að þegar ég er í fríi þá fer eitthvað í gang. Ég man varla eftir því að hafa verið í fríi án þess að eitthvað væri í gangi.“

Brynjar Björn er með UEFA B- þjálfararéttindi og í næsta mánuði stefnir hann á að fá A-gráðuna. Hann fer ekkert leynt með að hugur hans stefnir í þjálfun.

„Ég stefni á að þjálfa í framtíðinni. Ég verð væntanlega kominn með full réttindi til að þjálfa í næsta mánuði,“ sagði Brynjar en hann átti lipra spretti með KR í sumar og hefur hug á því að sprikla meira.

„Eins og staðan er núna er stefnan að spila fótbolta áfram. Framhaldið hjá mér kemur í ljós þegar ég kem heim. Ég er samningsbundinn KR þannig að ég mun eðlilega ræða við þá þegar ég kem heim. Framtíðin er því ekki alveg í mínum höndum.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Brynjar lýst yfir áhuga á að þjálfa hjá KR en þar eru ekki neinar stöður í boði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×