Innlent

UMFÍ skuldar 200 milljónir og afnemur bílahlunnindi

Valur Grettisson skrifar
Helga Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ segir ekki alla sammála gjaldkeranum.
Helga Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ segir ekki alla sammála gjaldkeranum.
Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) skuldar rúmlega 200 milljónir króna og er því skuldugasta æskulýðsfélag Íslands. Félagið hefur fengið rúman milljarð í styrk frá íslenska ríkinu frá árinu 2001. Þá fær það vel yfir hundrað milljónir á ári vegna lottótekna en félagið á hlut í Íslenskri getspá.

Fráfarandi gjaldkeri félagsins bókaði á stjórnarfundi í lok september að skera yrði niður bifreiðahlunnindi hjá félaginu, sem meðal annars formaður þess nýtur. Heildarkostnaður vegna bifreiða á síðasta ári var tíu milljónir króna samkvæmt ársreikningi. Gjaldkerinn leggur einnig til róttækar aðgerðir eins og að selja höfuðstöðvar félagsins að Sigtúni 42.

Orðrétt segir í bókun gjaldkerans um húsnæðið: „[…] þrátt fyrir að húsaleiga til eigin reksturs og annarra aðila í húsinu sé með því allra hæsta sem þekkist í Reykjavík nást ekki endar saman í rekstri eignarinnar.“

„Það eru ekki allir sammála gjaldkeranum,“ segir Helga G. Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ. Hún segir UMFÍ hafa fengið Deloitte til að meta kosti þess að selja húsnæðið eða leigja og að Deloitte hafi metið það sem svo að það væri hagstæðara að eiga húsnæðið. Spurð aftur um álit fráfarandi gjaldkerans svarar Helga: „Við eigum ekki í neinum vandræðum.“

Engu að síður fékk stjórnin samþykkt á síðasta þingi heimild til að selja höfuðstöðvar UMFÍ að Sigtúni. Eins fékk stjórnin heimild til þess að selja veitingahús í eigu félagsins í Þrastarlundi. Mikil vandræði hafa einkennt rekstur Þrastarlundar síðustu ár. Þannig var tap af rekstri Þrastarlundar átta og hálf milljón króna árið 2012. Það er þó nokkuð betra en árið 2011 þegar UMFÍ tapaði 15 milljónum á rekstrinum.

Aðspurð hverjir séu með hlunnindabifreiðar hjá UMFÍ svarar Helga að það séu þrír sem njóti slíkra hlunninda. Það sé hún sjálf og svo tveir starfsmenn félagsins. „En það stendur til að breyta því,“ bætir hún við. Aðspurð hvað komi til að því verði breytt svarar Helga: „Við ætlum bara að gera það.“

Þegar hún er innt aftur eftir svari svarar hún: „Það hlýtur að vera sparnaðaraðgerð. Við viljum borga niður skuldir.“

Helga rifjar þá upp áfall sem UMFÍ varð fyrir eftir hrun þegar félagið fjárfesti í verðbréfum hjá VBS fyrir 70 milljónir króna. Félagið reynir nú að endurheimta féð og hefur tekist það að einhverju leyti, auk þess sem UMFÍ hefur kært VBS til sérstaks saksóknara.

„Reksturinn síðustu tíu ár hefur ekki verið nógu góður,“ segir Jón Pálsson, fráfarandi gjaldkeri félagsins, þegar hann er spurður um álit sitt á rekstri UMFÍ síðustu ár, sem einkennst af misheppnuðum hlutabréfaviðskiptum hjá VBS, veitingahúsi sem stendur ekki undir sér og mikilli skuldasöfnun þrátt fyrir traustar tekjur.

„En það eru ekki fasteignir eða veraldlegir hlutir sem þetta á að snúast um heldur starfið sjálft. Þar á fókusinn að vera,“ segir Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×