Innlent

Skoða ríkari þátttöku einkaaðila í samgönguverkefnum

Valur Grettisson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir Innanríkisráðherra skoðar einkaframkvæmdir í samöngum. Fréttablaðið/Valli
Hanna Birna Kristjánsdóttir Innanríkisráðherra skoðar einkaframkvæmdir í samöngum. Fréttablaðið/Valli
„Við viljum fjölga samgöngukostum almennings og hraða framkvæmdum með það í huga að auka samstarf hins opinbera við einkaaðila,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að innanríkisráðherra hafi hafið skoðun á hugsanlegri aðkomu einkaaðila að samgöngubótum hér á landi á næstu árum.

Hanna Birna segir það þó algjörlega skýra kröfu að slíkar framkvæmdir komi ekki til álita nema íbúar og vegfarendur hafi kost á annarri leið samhliða einkaframkvæmdinni. „Það er alveg skýrt í mínum huga,“ bætir Hanna Birna við.

Í þessu samhengi bendir Hanna Birna á Hvalfjarðargöngin, sem eru einkaframkvæmd, en hægt er að keyra Hvalfjörðinn vilji einstaklingar ekki nýta sér göngin vegna kostnaðar.

Aðspurð til hvaða framkvæmda ríkið horfir í þessu samhengi segir Hanna Birna að nú sé verið að kanna fýsilega kosti. „Ég vona að Vegagerðin skili fyrstu tillögum sínum í næsta mánuði.“

Hún segir hugmyndina um aukna aðkomu einkaaðila ekki eingöngu snúast um sparnað, „heldur viljum við koma af stað aðgerðum og framkvæmdum sem eru ekki aðeins drifnar áfram af hinu opinbera“.

Það eru ekki aðeins vegaframkvæmdir sem ráðuneytið lítur til. Hanna Birna segir það einnig koma til greina að einkaaðilar komi að uppbyggingu hafna og flugvalla. Hún segir þegar nokkurn áhuga á uppbyggingu innviða hafna, meðal annars vegna áforma um siglingaleiðir um norðurslóðir. Hanna Birna segir mikilvægt að skoða reynslu annarra landa í þessu sambandi.

„Víða hefur þetta gefist mjög vel,“ segir Hanna Birna um samstarf einkaaðila og ríkis við uppbyggingu á úrbótum í samgöngum og bendir í því tilliti á Holland.

Framkvæmdastofnun og framkvæmdahluti Siglingastofnunar voru sameinuð undir merkjum Vegagerðarinnar 1. júlí síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að útgjöld sameinaðrar stofnunar aukist um 600 milljónir króna á næsta ári og verði alls tuttugu milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×