Innlent

Kokkur ákærður fyrir að taka eldhúsinnréttingu, tæki og hurðir

Stígur Helgason skrifar
Maðurinn fjarlægði nær allt úr eldhúsinu. Meðfylgjandi mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Maðurinn fjarlægði nær allt úr eldhúsinu. Meðfylgjandi mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært hálffertugan mann fyrir skilasvik og fjárdrátt með því að hafa strípað eldhús, baðherbergi og þvottahús íbúðar í Árbæ sem hann hafði til umráða mánuðina áður og eftir að hún var seld nauðungarsölu.

Í ákærunni segir að maðurinn, sem er kokkur, hafi fjarlægt úr íbúðinni „eldhúsinnréttingu ásamt eyju sem þar stóð í eldhúsi, án heimildar veðhafa“, sem var Byr sparisjóður. Íbúðin var veðsett Byr fyrir 11,5 milljónir með öllu sem henni fylgdi.

Þá hafi hann enn fremur, eftir að íbúðin var seld nauðungarsölu 22. júní 2010, fjarlægt úr íbúðinni og tekið í sína vörslu „eldavél, ofn, helluborð og innréttingar í bað- og þvottahúsi, blöndunartæki og handklæðaofn, allar innihurðir og hurðakarma, öll innfelld halogen-ljós og rafbúnað“. Verðmæti þessa hafi verið 4,2 milljónir.

Maðurinn hefur neitað sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×