Innlent

Kindur, stökk og kollhnísar

Agnes Heiða Skúladóttir á sigurmyndina í ljósmyndakeppni Fréttablaðsins að þessu sinni. Myndin heitir Gott dagsverk.
Agnes Heiða Skúladóttir á sigurmyndina í ljósmyndakeppni Fréttablaðsins að þessu sinni. Myndin heitir Gott dagsverk. Mynd/Agnes Heiða Skúladóttir
„Myndin var tekin í réttum skammt frá Grenivík núna í haust og konan sem fylgist með er hún Ásta, skólastjóri á Grenivík. Ég hef ekki farið í réttir síðan ég var smástelpa en vinkona mín í ljósmyndaklúbbnum Álfkonum dró mig með sér og það var ferlega gaman,“ segir Agnes Heiða Skúladóttir, sigurvegari í ljósmyndakeppni Fréttablaðsins, þar sem þemað var útivist.

Agnes segist lengi hafa haft áhuga á ljósmyndum, enda er fjöldinn allur af áhuga- og atvinnuljósmyndurum í fjölskyldunni hennar. „Ætli þetta sé ekki bara í blóðinu?“ segir Agnes, en hún er meðlimur í átján kvenna ljósmyndaklúbbi á Akureyri sem hittist vikulega, ræðir um hluti tengda ljósmyndum og heldur sýningar af og til.

„Ljósmyndaklúbburinn er að fara í ljósmyndaferð á Snæfellsnes núna og ég hlakka mikið til,“ segir Agnes.

Alls barst 271 ljósmynd í keppnina, en þátttakendur hlaða upp myndum sínum á ljosmyndakeppni.visir.is og á Facebook-síðu Fréttablaðsins.

Lesendur geta kosið bestu myndina og gildir niðurstaðan í kosningunni helming á móti áliti dómnefndar blaðsins, sem skipuð er þeim Ólafi Stephensen ritstjóra, Silju Ástþórsdóttur útlitshönnuði og Pjetri Sigurðssyni ljósmyndara.

2. sæti: Stórt scrub.

Ljósmyndari: Guðni Þór Valþórsson

3. sæti: Fjöllin grandskoðuð.

Ljósmyndari: Steef van Oosterhout

4. sæti: Reiðtúr

Ljósmyndari: Jónas H. Ottósson

5. sæti: Toppnum náð

Ljósmyndari: Kolbrún Þorsteinsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×