Íslenski boltinn

Garðar Gunnlaugs spenntur fyrir Bandaríkjunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Garðar Gunnlaugs skoraði 4 mörk í Pepsi-deildinni 2013.
Garðar Gunnlaugs skoraði 4 mörk í Pepsi-deildinni 2013. Fréttablaðið/daníel
Garðar Bergmann Gunnlaugsson verður ekki í vandræðum með að finna sér nýtt félag fari svo að hann yfirgefi herbúðir ÍA.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá hefur stjórn knattspyrnudeildar ÍA greint Garðari frá því að þjónustu hans sé ekki lengur óskað hjá félaginu.

„Það kom fyrirspurn frá Bandaríkjunum í gær. Það eru nokkur lið að leita að leikmanni eins og mér,“ sagði Garðar en hann vildi ekki gefa upp hvaða lið væri um að ræða. Hann segist þó vera spenntur fyrir því að fara til Bandaríkjanna.

„Ég er alveg til í að skoða þennan möguleika. Mig hefur alltaf langað að prófa að búa í Bandaríkjunum. Það hefur alltaf heillað mig og því gæti þetta verið spennandi möguleiki.“

Garðar segist vonast til þess að kíkja út á félögin á næstu vikum. Hvað með áhuga hér heima?

„Það hafa víst einhver tvö lið haft samband og verið að spyrja um stöðu mína. Bjarki bróðir minn er með þau mál á sinni könnu og ég er því ekkert að stressa mig á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×