Innlent

„Með ólíkindum“ að Íbúðalánasjóður sleppi við bankaskatt

Þorgils Jónsson skrifar
Samtök fjármálafyrirtækja eru ósátt við að fjársýsluskattur sé ekki afnuminn í ljósi hærri bankaskatts. Þá sé "með ólíkindum“ að Íbúðalánasjóður, sem er í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki, sé undanþeginn bankaskatti.
Samtök fjármálafyrirtækja eru ósátt við að fjársýsluskattur sé ekki afnuminn í ljósi hærri bankaskatts. Þá sé "með ólíkindum“ að Íbúðalánasjóður, sem er í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki, sé undanþeginn bankaskatti. Fréttablaðið/Samsett mynd
Samtök fjármálafyrirtækja lýsa yfir vonbrigðum með að stjórnvöld skuli ætla að sækja tekjuauka í gegnum hækkun bankaskatts úr 0,041% í 0,145% án þess að afnema fjársýsluskatt. SFF segir að fjársýsluskatturinn leggist aðeins á eina atvinnugrein og „sendi röng skilaboð“. Þá gagnrýna samtökin að Íbúðalánasjóður sé undanþeginn bankaskattinum.

„Í ljósi þess að hækka á skatthlutfallið nánast fjórfalt er með ólíkindum að einn aðili í beinni samkeppni við þau fjármálafyrirtæki sem skatturinn lendir á eigi að vera undanþeginn,“ segir í tilkynningu.

Samkvæmt útreikningum SFF munu aðildarfélög samtakanna greiða um 27 milljarða króna í skatta og gjöld árið 2014. Það sé fimm milljörðum meira en aðildarfélögin borguðu árið 2007, þegar bankakerfið var átta sinnum stærra en landsframleiðsla, en í dag er kerfið tvöfalt stærra en landsframleiðsla.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF, segir að þetta stingi verulega í augu og Alþingi hljóti að skoða þessi mál þegar fjárlagafrumvarpið kemur þar til umræðu.

„Þessir skattar og gjöld sem fjármálafyrirtæki í dag eru að greiða eru orðin verulega mikil og íþyngjandi og við höfum rætt við stjórnvöld um að þau fari nú að sveigja til baka frá þessum álögum, og þá ekki síst ótekjutengdum sköttum og gjöldum sem íþyngja greininni mjög.“

Að sögn Guðjóns eru fjármálafyrirtækin hér á landi í harðri samkeppni bæði á innanlandsmarkaði, meðal annars við ríkið, sem og erlenda aðila. Það skipti máli að tryggja að umhverfið sé þannig að fjármálafyrirtækin séu samkeppnishæf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×