Innlent

Ekki verið að vernda brothættar byggðir

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kirkjubæjarstofa átti að vera umgjörð um fyrirhugaða Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði þjóðgarðsins.
Kirkjubæjarstofa átti að vera umgjörð um fyrirhugaða Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði þjóðgarðsins.
„Þetta er þungur skellur fyrir samfélagið hér, vægt til orða tekið,“ segir Ólafía Jakobsdóttir, forstöðumaður Kirkjubæjarstofu, en samkvæmt fjárlögum næsta árs sem voru kynnt á Alþingi í gær verður hætt við byggingu Þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri.

Við það minnka framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs úr 732 milljónum í 352 milljónir. Þekkingarsetrið átti að mynda umgjörð utan um fyrirhugaða Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á vestursvæði þjóðgarðsins. „Ég vona að það sé ekki búið að slá af gestastofuna. Ef það er endanlega hætt við að byggja gestastofu á Kirkjubæjarklaustri þá er það mikil breyting.“

„Þekkingarsetrið átti að innihalda starfsemi sem er mjög mikilvæg hér í Skaftárhreppi,“ segir Ólafía. „Þetta er eitt af þeim sveitarfélögum sem standa illa og hér hefur verið mikil fólksfækkun. Það er samt mikil uppbygging og ferðaþjónusta.“ Það kom Ólafíu í opna skjöldu að verkefnið skyldi slegið út af borðinu. „Það hafði aukið bjartsýni hjá íbúum.“

Ólafía segir þó alls ekki á stefnuskránni að gefast upp. „Næsta skref hjá okkur sem höfum verið að vinna að þessu verkefni verður að leita skýringa hjá þingmönnum Suðurlands og ríkistjórninni hvað þeir hyggist gera með þetta. Nú er að fara af stað verkefnið Verndum brothættar byggðir, sem er verkefni á vegum Byggðastofnunnar, það er varla í samræmi við það að vernda brothættar byggðir að fella út þetta verkefni hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×