Innlent

Krefjast aðkomu að skipulagi Reykvíkur

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Borgin hefur aðkomu að skipulagi miðhálendisins og því eiga önnur sveitarfélög að koma að skipulagi borgarinnar segja sveitarfélög í Árnessýslu.
Borgin hefur aðkomu að skipulagi miðhálendisins og því eiga önnur sveitarfélög að koma að skipulagi borgarinnar segja sveitarfélög í Árnessýslu. Fréttablaðið/Vilhelm
Skipulagsmál höfuðborgar Íslands eru ekki einkamál íbúa Reykjavíkur eða kjörinna sveitarstjórnarmanna borgarinnar, heldur þjóðarinnar allrar,“ segir í bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem fulltrúar annarra sveitarfélaga í skipulagsnefnd uppsveita Árnessýslu taka heils hugar undir.

Í bókun sveitarstjórnarinnar er lýst óánægju með þau áform Reykjavíkurborgar að flugvöllur hverfi úr Vatnsmýri. Sem höfuðborg hafi Reykjavík miklar skyldur gagnvart landsbyggðinni. Í borginni hafi átt sér stað mikil uppbygging „á þjóðargrundvelli“, svo sem heilbrigðisþjónusta, þar sem nýtt hafi verið fjármagn allrar þjóðarinnar.

„Rétt er að benda á að fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa tryggan aðgang að öðrum skipulagsákvörðunum á landsvísu, svo sem miðhálendi Íslands, þó það svæði falli ekki innan stjórnsýslumarka Reykjavíkurborgar. Það er því skýlaus krafa sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að tekið verði tillit til hagsmuna og sjónarmiða annarra sveitarfélaga þegar um er að ræða slík grundvallarmál í þjónustu við landsmenn alla,“ segir í bókunninni sem fulltrúar Grímsness- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps hafa einnig gert að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×