Íslenski boltinn

Atli Viðar orðinn meðlimur í klúbbnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur bara einn leikmaður skorað fleiri mörk fyrir eitt lið en Atli Viðar, sem hefur skorað 88 mörk fyrir FH.
Það hefur bara einn leikmaður skorað fleiri mörk fyrir eitt lið en Atli Viðar, sem hefur skorað 88 mörk fyrir FH. Mynd/Daníel
Aðalmælikvarðinn á frammistöðu framherja í íslensku deildinni hefur ávallt verið miðaður við það hvort þeir nái tíu mörkum á sumri. 158 sinnum hafa leikmenn náð að brjóta tíu marka múrinn frá því að deildaskipting var tekin upp árið 1955 en það eru bara sjö kappar sem hafa náð þessu höfuðmarkmiði fimm sinnum.

Sjöundi félaginn bættist í klúbbinn um síðustu helgi þegar Atli Viðar Björnsson skoraði sitt 10. og 11. mark í Pepsi-deildinni í sumar. Hann var þá að ná fimmta tíu marka tímabili sínu á sex árum og það þrátt fyrir að missa af talsverðum hluta tímabilsins vegna meiðsla.

Matthías Hallgrímsson var stofnmeðlimur klúbbsins þegar hann skoraði fimmtán mörk á sínu fyrsta ári með Val sumarið 1980 en kappinn hafði þá áður átt fjögur tíu marka tímabil með Skagamönnum.

Sigurlás Þorleifsson bættist í hópinn tveimur árum síðar og ári síðar varð Ingi Björn Albertsson þriðji meðlimurinn. Guðmundur Steinsson komst í klúbbinn 1990 og varð síðan sá fyrsti til að ná sex tíu marka tímabilum ári síðar. Hörður Magnússon (1994) og Tryggvi Guðmundsson (2008) voru þeir einu sem höfðu komist í klúbbinn á síðustu 22 árum.

Atli Viðar setti met á árunum 2008 til 2011 þegar hann varð sá fyrsti til að rjúfa tíu marka múrinn fjögur sumur í röð en alls skoraði Atli Viðar 52 mörk á þessum fjórum tímabilum.

Atli Viðar náði aðeins að spila tíu leiki í fyrra og hefur verið að glíma við meiðsli í sumar alveg eins og þá. Endasprettur hans hefur hins vegar verið magnaður. Hann hefur skorað fimm mörk í síðustu fjórum leikjum og það þrátt fyrir að byrja aðeins einn þeirra.

Atli Viðar varð á sunnudaginn sjötti elsti maðurinn sem nær því að brjóta tíu marka múrinn en aðeins þeir Tryggvi Guðmundsson (tvisvar sinnum, ÍBV 2011 og FH 2008), Atli Eðvaldsson (KR 1991), Jónas Grani Garðarsson (Fram 2007) og Helgi Sigurðsson sem voru eldri.

Tryggvi Guðmundsson, markahæsti leikmaður efstu deildar, skoraði 41 mark eftir að hann komst á sama aldur og Atli Viðar er nú. Þeir voru sem sagt með jafnmörg mörk á þessum tímapunkti á ferli sínum. Hvort Atli Viðar komist í hundrað marka klúbbinn er önnur saga.

Meðlimir í 5 x 10 klúbburinn
Guðmundur Steinsson - 6 tímabil

Fram, 1984 - 10 mörk

Fram, 1985 - 10 mörk

Fram, 1986 - 10 mörk

Fram, 1988 - 12 mörk

Fram, 1990 - 10 mörk

Víkingur, 1991 - 13 mörk

Tryggvi Guðmundsson - 6 tímabil

ÍBV, 1993 - 12 mörk

ÍBV, 1995 - 14 mörk

ÍBV, 1997 - 19 mörk

FH, 2005 - 16 mörk

FH, 2008 - 12 mörk

ÍBV, 2011 - 10 mörk

Atli Viðar Björnsson - 5 tímabil

FH, 2008 - 11 mörk

FH, 2009 - 14 mörk

FH, 2010 - 14 mörk

FH, 2011 - 13 mörk

FH, 2013 - 11 mörk

Sigurlás Þorleifsson - 5 tímabil

ÍBV, 1977 - 12 mörk

ÍBV, 1978 - 10 mörk

Víkingur, 1979 - 10 mörk

ÍBV, 1981 - 12 mörk

ÍBV, 1982 - 10 mörk

Matthías Hallgrímsson - 5 tímabil

ÍA, 1971 - 11 mörk

ÍA, 1973 - 12 mörk

ÍA, 1975 - 10 mörk

ÍA, 1978 - 11 mörk

Valur, 1980 - 15 mörk

Hörður Magnússon - 5 tímabil

FH, 1989 - 12 mörk

FH, 1990 - 13 mörk

FH, 1991 - 13 mörk

FH, 1993 - 13 mörk

FH, 1994 - 10 mörk

Ingi Björn Albertsson - 5 tímabil

Valur, 1972 - 11 mörk

Valur, 1976 - 16 mörk

Valur, 1977 - 15 mörk

Valur, 1978 - 15 mörk

Valur, 1983 - 14 mörk

Flest mörk fyrir eitt félag í efstu deild:Ingi Björn Albertsson, Val 109

Atli Viðar Björnsson, FH 88

Hörður Magnússon, FH 84

Hermann Gunnarsson, Val 81

Guðmundur Steinarsson, Keflavík 81

Guðmundur Steinsson, Fram 80

Matthías Hallgrímsson, ÍA 77

Tryggvi Guðmundsson, ÍBV 75

Steinar Jóhannsson, Keflavík 72

Steingrímur Jóhannesson, ÍBV 72






Fleiri fréttir

Sjá meira


×