Skoðun

Encyclopedia Britannica í snjallsímann og spjaldtölvuna

Birgir Björnsson skrifar
Allir á Íslandi sem tengjast netinu í gegnum íslenskar netveitur hafa sér að kostnaðarlausu aðgang að fjölbreyttu efni í gegnum áskriftir Landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum, tímaritum og rafbókum – http://hvar.is/. Meðal efnis er alfræðiritið Encyclopædia Britannica sem er á ensku.

Sumir lesendur muna ef til vill eftir prentaðri útgáfu ritsins sem áður fyrr var til á mörgum bókasöfnum. Síðasta prentaða útgáfa alfræðiritsins kom út árið 2010 en í dag er Encyclopedia Britanica aðeins gefin út í rafrænu formi. Efni hennar er uppfært daglega og við heimildaöflun, skrif og ritstjórn vinna sérfræðingar og fræðafólk hvert á sínu sviði og þannig er leitast við að tryggja áreiðanleika efnisins eftir bestu getu.

Hægt er að komast í tvær útgáfur ritsins í gegnum áskrift Landsaðgangs, það er fræðilega hlutann (Academic edition) http://www.britannica.com/ sem nýtist sérstaklega nemendum á framhalds- og háskólastigi og þá er sérstök skólaútgáfu (School edition) http://school.eb.co.uk/ sem ætluð er nemendum á grunnskólaaldri. Í skólaútgáfunni er hægt að velja um þrjú þyngdarstig á texta sem er sniðinn að aldri og lestrarfærni lesendanna. Báðar útgáfurnar eru að sjálfsögðu opnar og aðgengilegar fyrir allan almenning hvar sem er á Íslandi.

Hægt er að skoða fjöldann allan af ljósmyndum og skýringarmyndum, streyma myndefni og þá er lesendum vísað áfram í annað ítarefni á netinu. Allt myndefni í Encyclopedia Britannica má nota í ritgerðir og við verkefnavinnu í skólastarfi. Á undanförnum árum hafa vinsældir alfræðiritsins aukist jafnt og þétt en á síðasta ári sóttu Íslendingar 409.093 greinar í alfræðiritið.

Rafræn útgáfa Encyclopedia Britannica er aðlöguð öllum gerðum tölva, hvort sem um er að ræða borðtölvur, fartölvur, spjaldtölvur, lesbretti eða snjallsíma. Einnig er í boði að nota leitarvél sem sniðin er að snjallsímum og spjaldtölvum og hægt er að sækja á slóðinni http://m.eb.com. Hefur þú leitað í Encyclopedia Britannica í dag?




Skoðun

Sjá meira


×