Innlent

Umsókn um lóð undir skipaniðurrif synjað

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Áhugi margvíslegra iðnfyrirtækja beinist nú að Grundartanga.
Áhugi margvíslegra iðnfyrirtækja beinist nú að Grundartanga.
Taka á upp viðræður við tvö félög sem áhuga hafa á iðnaðarlóðum á Grundartanga. Umleitan þriðja félagsins er hins vegar synjað.

Stjórn Faxaflóahafna tók málin fyrir á síðasta fundi. Þar var hafnarstjóra falið að ræða við Quantum ehf. um aðstöðu á Grundartanga fyrir framleiðslu á viðarkubbum. Áskilið er að unnin verði umhverfisskýrsla sem nýta megi sem fyrirspurn um matsskyldu til Skipulagsstofnunar áður en ákvörðun er tekin.

Þá er hafnarstjóranum einnig falið að ræða við Atlantic Green Energy ehf. um úthlutun lóðar undir aðstöðu til framleiðslu á biodiesel.

Erindi TS Shipping um viljayfirlýsingu um aðstöðu til niðurrifs á skipum fékk ekki hljómgrunn. „Ljóst er að verkefnið kallar á umfangsmiklar lóðaframkvæmdir, breytingar á aðal- og deiliskipulagi og ekki liggur nægjanlega fyrir hver umhverfisáhrif af starfseminni verða. Því telur hafnarstjórn ekki forsendu til frekari viðræðna nema að fyrir liggi af hálfu TS Shipping umhverfisskýrsla sem gefi tilefni til frekari viðræðna og geti orðið grundvöllur matsfyrirspurnar til Skipulagsstofnunar og umsagnar Hvalfjarðarsveitar,“ segir hafnarstjórnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×