Íslenski boltinn

KR-ingar geta tryggt sér titilinn á Hlíðarenda í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-liðið er í kjörstöðu á toppnum.
KR-liðið er í kjörstöðu á toppnum. Mynd/Daníel
KR-inga vantar aðeins tvö stig til að tryggja sér 26. Íslandsmeistaratitilinn. KR-liðið getur afrekað það á morgun sem félagið hefur aldrei náð – að tryggja sér titilinn á heimavelli erkifjendanna á Hlíðarenda.

Sömu sögu er ekki að segja af Valsmönnum, sem tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á KR-vellinum 5. september 1987. Báðir þjálfarar KR í dag, Rúnar Kristinsson og Pétur Pétursson, léku þá með KR-liðinu og geta því loksins náð hefndum, 26 árum síðar. Íslandsmeistaratitilinn hefur aðeins einu sinni unnist á Hlíðarenda en Valsmenn tryggðu sér titilinn 1985 með því að vinna einmitt 1-0 sigur á KR-ingum.

Heil umferð fer fram á morgun og hefjast allir leikirnir klukkan 16.00. Stjarnan og Breiðablik mætast í Garðabænum í mikilvægum leik í baráttunni um Evrópusæti. Stjarnan er með fjögurra stiga forskot á Blika þegar sex stig eru í pottinum. Blikar verða því að vinna.

Fallbaráttan er líka í fullum gangi þótt Skagamenn séu fallnir úr deildinni. Þórsarar fá ÍA í heimsókn á sama tíma og Ólafsvíkur-Víkingar heimsækja Fylki í Árbæinn og Keflvíkingar taka á móti ÍBV.

Keflvíkingar tryggja sæti sitt með sigri og Víkingar falla úr deildinni ef þeir tapa sínum leik á sama tíma og Þór tekur öll stigin á móti Skaganum. Fram tekur á móti FH í lokaleiknum en FH á enn pínulitla möguleika á meistaratitlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×