Íslenski boltinn

Jói Kalli er ekki til sölu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Skagamenn taka ekki í mál að selja fyrirliðann sinn í vetur. Jóhannes Karl spilar því að óbreyttu í 1. deildinni næsta sumar.
Skagamenn taka ekki í mál að selja fyrirliðann sinn í vetur. Jóhannes Karl spilar því að óbreyttu í 1. deildinni næsta sumar. Mynd/Pjetur
Knattspyrnustórveldið ÍA er fallið úr Pepsi-deildinni. Dvölin í deild þeirra bestu var stutt að þessu sinni eða aðeins tvö ár. Þetta var í fjórða sinn sem ÍA fellur úr efstu deild.

Skagamenn hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum í Pepsi-deildinni í sumar. Þeir hafa aðeins unnið tvo leiki af nítján og ekki tekið nema eitt stig af þrjátíu mögulegum á útivelli. ÍA er einfaldlega með lélegasta liðið í Pepsi-deildinni í sumar.

„Við ætlum bara að klára þetta mót áður en við hittumst, setjumst niður og förum yfir framhaldið,“ sagði Ingi Fannar Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar ÍA, súr í bragði.

Spekingar eru á einu máli um að ÍA hafi einfaldlega ekki sent nógu gott lið til keppni. Hvað finnst formanninum?

„Það er erfitt að meta það almennilega núna. Maður gerir það þegar reiðin rennur af manni. Þá er hægt að greina þetta svo eitthvað vit sé í því. Það er ekki hægt að segja neitt núna nema vera bara í bulli.“

Það gekk mikið á hjá Akranesi í sumar. Þórður Þórðarson hætti að þjálfa liðið og í hans stað kom Þorvaldur Örlygsson. Það skilaði liðinu ekki neinu. Er eitthvað sem stjórnin sér eftir? „Við gerðum örugglega fullt af mistökum.“

Ingi Fannar segir að stjórnin sé ánægð með störf Þorvalds þó svo að úrslitin hafi ekki verið góð. Formaðurinn vildi ekki gefa neitt upp um hvort hann yrði áfram með liðið.

Sú fiskisaga hefur flogið að Skagamenn ætli sér að reyna að fá Sigurð Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi þjálfara kvennalandsliðsins, til þess að taka við liðinu.

„Ég held að þetta sé bara eitthvað bull. Ég hef ekki heyrt þessa sögu. Ég heyri þær sjaldnast enda vinn ég í banka með tuttugu konum. Við höfum ekkert rætt við Sigurð Ragnar.“

Mikið hefur verið rætt um framtíð fyrirliðans, Jóhannesar Karls Guðjónssonar, en orðið á götunni hefur verið að hann muni fara í KR eða FH. Ingi Fannar segir að ekkert verði af því.

„Hann er samningsbundinn okkur og á eitt ár eftir af samningi. Hann er ekki til sölu. Þetta er fyrirliði liðsins og það er ekki séns að hann fari. Hann fær ekkert að fara,“ sagði Ingi Fannar ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×