Skoðun

Hamingja og heilbrigði

Edda Björgvinsdóttir og Margrét Leifsdóttir skrifar
Það er að minnsta kosti tvennt sem við mannfólkið eigum sameiginlegt: Í fyrsta lagi viljum við vera hamingjusöm, í öðru lagi viljum við vera heilbrigð. Sá eiginleiki sem aðskilur okkur frá dýrunum er að við sækjumst eftir væntumþykju annarra og þurfum að fá staðfestingu á því að við séum einhvers virði.

Hvað getum við gert til þess að öðlast hamingju og heilbrigði? Vitur manneskja sagði: „Þú ræður í hvernig skapi þú ert.“ Það sama á við um hamingjuna. Við tökum ákvörðun um að vera hamingjusöm og einbeitum okkur að því að meta að verðleikum það sem við höfum. Ef okkur tekst það, þá einfaldlega verðum við heilbrigðari manneskjur. Það er margt sem við getum tekið okkur fyrir hendur til að auka vellíðan okkar og hamingju. Við getum dansað, hugleitt, sungið, átt uppbyggilegar stundir með fjölskyldu og vinum, faðmað samferðafólk okkar og gefið af okkur. Við getum hreinlega komið okkur í náttúrulega vímu með því að hreyfa okkur, elska, syngja, dansa og hlæja. Við það eykst framleiðsla hamingjuhormóna margfalt í líkamanum og við upplifum mikla vellíðan.

Það er til mikils að vinna að vera sáttur og ánægður í eigin skinni því aðeins í því ástandi getum við gefið af okkur til annarra. Þegar við gefum af okkur til annarra tjáum við væntumþykju okkar og sýnum að þeir séu okkur mikilvægir. Á þann hátt stuðlum við ekki aðeins að okkar eigin hamingju heldur líka annarra. Með öðrum orðum, við breiðum út hamingjuna.

Alla föstudaga í september verða haldin Hamingjuhádegi í Tjarnarsal ráðhússins á vegum Reykjavíkurborgar og Hamingjuhússins. Hamingjuhormónaframleiðslan mun margfaldast því í hálftíma verður dansað, sungið, hlegið og hugleitt og dagurinn verður betri. Vonumst til að sjá ykkur öll!




Skoðun

Sjá meira


×