Fótbolti

Spiluðum vel á móti þeim heima

Henry Birgir Gunnarsson í Bern skrifar
Leikmenn íslenska landsliðsins gera sér fyllilega grein fyrir því að liðið þarf að spila frábærlega til að eiga möguleika annað kvöld.
Leikmenn íslenska landsliðsins gera sér fyllilega grein fyrir því að liðið þarf að spila frábærlega til að eiga möguleika annað kvöld. fréttablaðið/Valli
Aron Einar Gunnarsson fyrirliði og Kolbeinn Sigþórsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær. Þeir taka undir þau orð þjálfarans að Ísland geti unnið sigur á gríðarlega sterkum útivelli.

„Við komum í alla leiki til þess að vinna þá en því er ekki að neita að þetta er gríðarlega sterkur völlur. Við spiluðum vel á móti þeim heima en við vitum að þetta verður erfiðari leikur núna. Við ætlum að reyna að sækja til sigurs en hvort okkur tekst það verður að koma í ljós,“ sagði Aron Einar.

„Þetta lið er bara þannig að það hugsar ekkert um að taka eitt stig. Við viljum alltaf fá þrjú stig sama hver andstæðingurinn er,“ bætti Kolbeinn við.

Það verður klárlega við ramman reip að draga. Svissneska liðið er gríðarlega vel spilandi og heldur boltanum ákaflega vel.

„Við þurfum fyrst og fremst að vera mjög skipulagðir. Við munum fá færi eins og í síðasta leik og ef við nýtum þau færi erum við í fínum málum. Varnarleikur alls liðsins er þó lykilatriði og við verðum að stoppa þá,“ segir Aron Einar. Kolbeinn segir strákana meðvitaða um að meðalmennska muni ekki skila neinu.

„Við þurfum að eiga algjöran toppleik. Við erum með gott lið og góða einstaklinga. Ef vörnin heldur og við í sókninni skorum er allt hægt,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×