Lífið

Ævar Þór: Ekkert sjálfgefið að fá að sitja uppi í tré og syngja einu sinni í viku

Sara McMahon skrifar
Ævar Þór Benediktsson, í hlutverki Lilla, og Jóhannes Haukur Jóhannesson, í hlutverki Mikka refs.
Ævar Þór Benediktsson, í hlutverki Lilla, og Jóhannes Haukur Jóhannesson, í hlutverki Mikka refs. Fréttablaðið/stefán
„Ég vil meina að Lilli klifurmús sé Hamlet barnaleikritanna. Það eru nokkrar rullur sem leikarar og leikkonur vita sérstaklega af og langar að takast á við og hlutverk Lilla er tvímælalaust eitt af þeim,“ segir Ævar Þór Benediktsson leikari. Hann fer með hlutverk Lilla klifurmúsar í uppsetningu Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi. Þetta er í fimmta sinn sem Þjóðleikhúsið setur upp verkið og stefnir í að hún verði sú vinsælasta frá upphafi.

Samkvæmt upplýsingum frá Ara Matthíassyni, framkvæmdastjóra leikhússins, hafa um 37 þúsund manns séð verkið, sem frumsýnt var fyrir ári. Enn eru þrjár sýningar eftir og því ljóst að uppsetningin verður sú vinsælasta frá upphafi. Til gamans má geta að verkið var heimsfrumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1962 og var höfundur þess, Thorbjörn Egner, svo hrifinn að hann gaf leikhúsinu sýningarréttinn á Dýrunum í Hálsaskógi og Kardimommubænum næstu hundrað árin.

Ævar viðurkennir að hann muni kveðja klifurmúsina og hin dýrin í Hálsaskógi með söknuði er sýningum lýkur um miðjan september. „Það er ekkert sjálfgefið að fá að sitja uppi í tré og syngja Dvel ég í draumahöll einu sinni í viku. Hópurinn sem að sýningunni stendur er líka frábær og það hefur verið ánægjulegt að vinna með þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.